Óskað eftir umfjöllun SGS um mál formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis

Skjáskot af vef DV.is

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur fyrir hönd félagsins óskað eftir því að Starfsgreinasamband Íslands fjalli um mál Magnúsar S. Magnússonar, formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis. Fjölmiðlar hafa á síðustu vikum fjallað oftar en einu sinni (sjá fréttir dags. 1. júní og 22. júní) um fasteignarekstur, starfsmannahald og útleigu á húsnæði á vegum Magnúsar. Samkvæmt fréttum DV hefur Magnús leigt út íbúðarrými í ólöglegu iðnaðarhúsnæði til fólks sem hjá honum starfar gegn „skiptivinnu.“ Fram kemur í umfjöllun DV að Brunavarnir Suðurnesja létu rýma umrætt húsnæði vegna skorts á brunavörnum.

Formaður Eflingar lagði í dag fram skriflegt erindi til Björns Snæbjörnssonar, formanns Starfsgreinasambands Íslands, um málið. Þar kemur fram að formaður Eflingar telur háttsemi Magnúsar í engu samræmast stöðu formanns í verkalýðsfélagi og að hún sé Starfsgreinasambandinu, sem er landssamband almennra verkalýðsfélaga, til mikillar vansæmdar. Í bréfinu spyr formaður Eflingar hvort Starfsgreinasambandið telji Magnúsi stætt á að gegna ábyrgðarstörfum innan SGS, svo sem að sitja í samninganefnd. Óskað er eftir tafarlausri og hreinskiptinni umfjöllun um málið.