Starfskraftur til sölu

„Ég er starfskraftur til sölu og ég er meira að segja frekar ódýr starfskraftur, en ekki eins ódýr og verið hefur, það er alveg á hreinu,“ sagði Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra fyrir skemmstu, þegar kjaradeila ljósmæðra við ríkið var í hámarki. Með þessum orðum hitti hún naglann á höfuðið því um þetta snýst „samtalið“ á hinum svokallaða vinnumarkaði: hversu mikið er greitt fyrir aðgang að starfskrafti okkar. Við, sem eigum ekki fjármagn eða eignir til að lifa af, seljum aðgang að vinnuafli okkar. Við erum  „starfskraftur til sölu“ og niðurstaða samtalsins ákvarðar verðið.

Það ætti að vera augljóst að við sjálf eigum að hafa töluvert mikið um það að segja hvað við fáum greitt fyrir alla þessa tíma og allt þetta líf, alla þessa vinnu. Við sjálf eigum að hafa mikið um það að segja hvaða vermiði er settur á okkur. En því miður virðist sem sumir „aðilar að samtalinu“ geti ekki með góðu móti viðurkennt þann rétt.

Verð vinnuaflsins

Það hlýtur að teljast sanngjörn krafa að verð vinnuaflsins miðist við þann kostnað sem er fólginn í því að lifa sem manneskja í samfélagi þar sem því sem næst allt er verðmerkt; kostnað við mat, húsnæði, fatnað og svo allan þann kostnað sem okkur er gert að bera í samfélagi nýfrjálshyggjunnar. Hér liggur beinast við að nefna aðgengi að æ kostnaðarvæddari heilbrigðisþjónustu, kostnaðarvæddri í þeim tilgangi að „auka kostnaðarvitund“ sjúklinga (þýtt yfir á mannamál: auka gróðamöguleika viðskiptalífsins). Ekki síst verður að taka inn í dæmið um hvað teljist sanngjörn laun fyrir unna vinnu þann kostnað sem fylgir því að eignast og ala upp börn (næstu kynslóð vinnuafls, lífsnauðsynlegu til þess að „hjól atvinnulífsins“ haldi áfram að snúast).

En hér erum við komin að því sem orsakar hin eilífu átök og kemur í veg fyrir það að samtalið sé eins „friðsamt“ og æskilegt þykir. Ef þau sem fara með efnahagsleg völd í samfélaginu þyrftu að viðurkenna af heiðarleika hver kostnaðurinn er við að komast af, hve hár kostnaðurinn við að reyna að tryggja einhverskonar efnahagslegt öryggi er, þá þurfa þau að borga vinnuaflinu hærri laun. Og þar stendur hnífurinn ávallt í hinni margstungnu og langþjáðu kú: ef þau sem fara með efnahagsleg völd þurfa að greiða verka- og láglaunafólki laun sem duga til að við fáum um frjálst höfuð strokið efnahagslega þurfa þau að sætta sig við minna sjálfum sér til handa, skerta möguleika á vellystingum og auðsöfnun. Og þeim þykir ekkert er verra en það.

Þessvegna eru nú fjölmiðlar fullir af hræðsluáróðri þeirra sem líta svo á að það sé engin þörf á því að uppskerunni sé skipt jafnt. Þetta er hræðsluáróður þeirra sem finnst bókstaflega ekkert athugavert við það að forstjórar fyrirtækja sem skráð eru í Íslensku kauphöllinni séu með um fimm miljónir króna í laun á mánuði, eða 17-18 föld lágmarkslaun. Þetta er hræðsluáróður þeirra sem vilja viðhalda þessu ástandi frekar en að setjast við hið margumrædda samningaborðið og vinna að raunverulegum stöðugleika í samfélaginu, raunverulegum stöðugleika byggðum á efnhagslegu réttlæti.

Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akranes, segir í viðtali á Vísi: „Við höfum heyrt áður þessa plötu hræðsluáróðurs. Henni hefur ávallt verið skellt á fóninn.“ Vilhjálmur rakti að árið árið 2015 spáðu Samtök atvinnulífsins 20% hækkun á verðbólgu vegna kjarasamninganna – en raunin varð 2% verðbólga. Hvað skýrir þetta? Getur verið að hin margtuggna og örþreytta söguskoðun sem hverfist í kringum óðaverðbólgutímabilið í kringum 1980 einfaldlega standist ekki? Getur verið að rót óstöðugleika í íslensku efnahagslífi sé sjálftökufólkið, ofurlaunamennirnir og fjárplógsstarfsemi þeirra sem leiddi jú af sér stórkostlegasta efnhagshrun samtímans, Hrunið 2008? Áróðursdeildir sérhagsmunaaflanna eiga mikið verk fyrir höndum að sannfæra íslenskan almenning um að það sem leiði þjóðfélagið til andskotans séu vonir fólks um sanngjarna verðlagningu vinnuaflsins en ekki innantóm pappírsviðskipti útþanins og ofalins fjármálakerfis auðstéttarinnar.

Kerfið og við

Það er ekki skrýtið að við sem tilheyrum stétt verkafólks upplifum að kerfið sé útbúið í þeim tilgangi að svína á okkur, til að þjóna hagsmunum hinna auðugu og valdamiklu á kostnað okkar, þegar við sjáum á degi hverjum, ár eftir ár, hversu mikið hin efnahagslega forréttindastétt uppsker í uppsveiflum og hversu lítið meðlimir hennar láta kreppur og krísur á sig fá. Við sjáum á hverjum degi hversu mikið og oft er hægt að afskrifa skuldir hjá þeim, hversu auðvelt það er fyrir þau að koma sér undan því að taka þátt í samneyslunni, þökk sé fáránlega lágum fjármagnstekjusköttum og skattaundanskotum.

Við sjáum á hverjum degi hversu einbeitt þau eru í að slá hvergi af sínum kröfum um auðæfi og völd sem má til að mynda sjá í því mikla „svigrúmi“ sem er til staðar fyrir ótrúlegar hækkanir hjá þeim sem lifa og starfa undir þeim verndarvæng sem stjórnkerfið heldur yfir sinni eigin yfirstétt. Á sama tíma hika þau aldrei við að krefja lágtekjuhópana um að gæta hófsemdar og stillingar. Efnhagslegir forréttindahópar hafa aðskilið sig frá viðmiðum alls almennings um hvað telst vera eðlilegt.

Vinnumarkaðurinn er óásættanlegur

Því hver getur með góðri samvisku sagt að ástandið á íslenskum vinnumarkaði sé ásættanlegt? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að það sé á einhvern máta eðlilegt og ásættanlegt að leiðbeinendur á leikskólum Reykjavíkurborgar séu að meðaltali með 354.000 kr. í heildarlaun fyrir fullt starf og þurfi að vinna aðra vinnu til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að óbreytt ástand sé ásættanlegt þegar bílstjórar og byggingarverkamenn þurfa að vinna miklu lengri daga en eðlilegt getur talist, oft við fráleitar aðstæður, til þess að eiga möguleika á að fá sæmilega útborgað?

Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að best sé að halda áfram á sömu leið þegar fréttir berast af því að umsóknum í sjúkrasjóði verkalýðsfélaga fjölgi stöðugt? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að „íslenskt vinnumarkaðsmódel“ sé til fyrirmyndar þegar stöðug aukning er á fjölda launakrafna sem Efling sendir út fyrir hönd félagsmanna, svo mikil að heildaupphæð krafna hækkaði um 45% á milli ára? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að ekki sé bráðnauðsynlegt að komast til botns í því hvað orsakar að aldrei hafa verið fleiri manneskjur í þjónustu hjá VIRK en á síðasta ári? Hver getur með góðri samvisku sagt að hér sé ástandið ágætt eftir að hafa rætt við og hlustað á frásagnir aðflutts verkafólks af misnotkun og svikum á íslenskum vinnumarkaði?
Hver getur með góðri samvisku sagt að (mis)skipting gæðanna sé með nokkru móti ásættanleg á Íslandi?

Stjórnmálin hafa brugðist

Þau sem fara með pólitísk völd eiga að axla þá ábyrgð að hemja tilætlunarsemi og græðgi auðvaldkerfisins. En við verðum að horfast í augu við að þarna hafa stjórnmálin brugðist verkafólki og láglaunafólki. Stjórnmálin hafa gengist inn á það að megin verkefnið sé að gæta að „stöðugleika“ með því að vernda hagsmuni, eignir og gróðamöguleika atvinnurekanda.

Þetta kemur berlega í ljós þegar við skoðum hversu ólýðræðisleg efnahagsstjórnin er. Við erum ekki spurð þegar ákvörðun er tekin um hvaða útvaldi iðnaður megi hverju sinni fá frjálsar hendur til að hafa sína hentisemi í íslensku efnahagslífi. Við erum ekki spurð þegar að því kemur að þjóðnýta tapið sem verður þegar kapítalistarnir fara fram úr sér í sínum heimsþekkta óhemjuhætti.

Við eigum að sætta okkur við að vera of smá og ómerkileg til að hlustað sé á skoðanir okkar á svo mikilvægum málum. Við eigum jafnframt að sætta okkur við að vera svo smá að engum komi til hugar að benda á að efnahagsleg velsæld okkar sé kerfinu nauðsynlegt. Þó blasir við að við sjálf, hendur okkar og höfuð, eru sannarlega kerfinu nauðsynleg. Heldur einhver að hér hefðu menn grætt á tá og fingri á nýliðnum árum ef ekki hefði verið fyrir vinnuaflið sem knýr  áfram vél hagvaxtarins?

Við megum ekki láta okkur dreyma um að velsæld okkar verði tryggð með sama hætti og velsæld auðstéttarinnar. Okkar velsæld er ávallt hægt að fórna með niðurskurði og hagræðingu. Henni má fórna með því að hleypa fjármagnseigendum í húsnæðismarkaðinn og hafa þannig af stórum hópi vinnandi fólks möguleikann á húsaskjóli (hinni lífsnauðsynlegu „vöru á markaði“) á einhverju sem mætti kalla sanngjarnt verð. Henni má fórna með því að auka skattbyrði okkar svo að hin ríku fái að halda eftir meira að peningunum sínum. Henni má fórna með því að hafa af okkur aðgang að vaxtabótum og barnabótum, vegna þess að auðstéttin þarf að fá að koma fé sínu undan í skattaskjól.

Stjórnmálin hafa brugðist okkar verka- og láglaunafólki, hvort sem er á Íslandi eða úti í heimi. Í stað þess að viðurkenna réttmæti krafna okkar um sanngjarna hlutdeild í afkomu þjóðarbúskaparins, í stað þess að viðurkenna grundvallarmikilvægi okkar í efnahagskerfinu, í stað þess að viðurkenna að án vinnu okkar er það efnahagskerfi sem við lifum í steindautt, að án okkar hætta hjólin að snúast samstundis, hafa stjórnmálin tekið þátt í verkefni nýfrjálshyggjunnar um að „heilbrigðu efnahagslífi“ verði aðeins viðhaldið með því að láta þau sem tilheyra lægri stéttum samfélagsins halda áfram að axla það óréttlæti sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði.

En hverskonar fólk erum við ef við samþykkjum að heilbrigðu efnahagslífi verði aðeins viðhaldið með efnhagslegu óréttlæti? Og hverskonar efnahagsstefna hefur skeytingarleysi gagnvart þörfum almennings sem grundvallarstef? Hvervegna ættum við að samþykkja að lifa áfram undir henni?

Völd 

Okkur líður oft eins og við höfum ekki völd í samfélaginu. Og það er sannarlega góðar og gildar ástæður fyrir því. Staðreyndir nefndar hér að ofan; aukin skattbyrði hjá fólki með lágar tekjur, hvernig grafið hefur verið undan barnabótakerfinu, vaxtabótakerfinu, stuðningi við leigjendur og öllum þeim „kerfum“ sem lágtekjuhóparnir reiða sig á til að bæta upp fyrir nirfilshátt vinnuveitenda segja mjög skýra sögu af því í þágu hverra hagsmuna hefur verið unnið undanfarna áratugi. Í veröld þar sem stjórnmálastéttin hefur meira og minna samþykkt möglunarlaust að vera ávallt fyrst og fremst framkvæmdarstjórar innleiðingar nýfrjálshyggjunnar hefur ekki verið pláss fyrir hagmuni fólks af verkalýðsstétt, hvað þá að pláss hafi verið fyrir verkalýðsstétt með völd.

Þegar við horfum í kringum okkur og veltum fyrir okkur ástandi veraldarinnar og öllum þeim vandamálum sem við er að fást er ekki skrítið þó að okkur fallist hendur. Hnattrænar loftslagsbreytingar ógna okkur öllum, ekki síst vegna þess að enginn pólitískur vilji eða hugrekki er til staðar til að gera það sem þarf; að setja kapítalismanum stólinn fyrir dyrnar.  Hin margumrædda fjórða iðnbylting er hafin og það er hrollvekjandi að hugsa til þess að við sem vinnum vinnuna höfum bókstaflega ekkert um það að segja hvernig ný tækni verður innleidd enda höfum við verið svipt möguleikanum á því að hafa nokkra aðkomu að því hvernig okkar eigin vinnustaðir eru reknir og erum þar meira og minna valdalaus. Við njótum engrar aðstoðar frá stjórnmálastéttinni við að koma í veg fyrir að þau sem fara með efnahagsleg völd ákvarði allar niðurstöður tæknibyltingarinnar í eigin þágu.

Alþjóðavædd stétt auðmanna sölsar stöðugt undir sig lönd og eignir, ekki síst hér á Íslandi þar sem fjármagnseigendur héðan og þaðan að úr heiminum eru bókstaflega í því verkefni að kaupa sístækkandi hluta af landinu. Og um alla veröld kemst til valda fólk sem hefur það að pólitísku markmiði að reisa múra í mannlegum samskiptum og flokka fólk eftir uppruna, húðlit eða trúarbrögðum (af algjöru skeytingarleysi gangvart þeirri sammannlegu ábyrgð sem við berum hvort á öðru), ekki síst í þeim tilgangi að koma í veg fyrir stéttasamstöðu og möguleikanum á raunverulegum pólitískum valkosti við nýfrjálshyggjuna.

En þrátt fyrir að vandamálin séu risavaxin og völd okkar virðist lítil höfum við þó í einu máli aðgang að völdum, einstökum völdum, völdum sem engir aðrir búa yfir. Og það eru völdin sem aðgangurinn að vinnuaflinu okkar færir okkur. Hver fær að nota hann og á hvaða verði. Við, félagsmenn Eflingar, erum líkt og Katrín Sif og ljósmæðurnar, starfskraftur til sölu, meira að segja frekar ódýr starfskraftur. En ekki eins ódýr og verið hefur. Og það er alveg á hreinu.