Félagsmaður Eflingar hefur betur í Hæstarétti

Fyrirtækið Sinnum var í gær í Hæstarétti dæmt til að greiða félagsmanni Eflingar tæpar 1.350 þúsund kr. í vangoldin laun og vexti, auk málskostnaðar upp á samtals 1.250 þúsund kr. en málið snerist um rétt til launa í slysaforföllum. Hæstiréttur staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur en það var Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar sem rak málið fyrir dómi f.h. félagsins. Dóm Hæstaréttar með Héraðsdómi viðhengdum  má sjá hér.Hæstiréttur staðfestir með vísan til forsendna héraðsdóms að félagsmaðurinn, Natalie Bonpimai teljist eiga rétt til greiðslu launa vegna slyss á leið frá vinnu, en ágreiningur stóð um hvort um slíkt slys hefði verið að ræða eður ei og hvort Sinnum gæti dregið frá laun sem Natalie hafði haft frá þriðja aðila.Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar, segir að þetta mál sé skólabókardæmi um góða hagsmunagæslu fyrir félagsmann frá byrjun. Natalie hafi verið afar ánægð og þakklát þegar hann heyrði í henni rétt eftir að dómurinn féll. Málið byrjar þannig að Natalie sækir um sjúkradagpeninga hjá Eflingu nokkrum mánuðum eftir slysið óafvitandi um að hún ætti mögulegan launarétt hjá atvinnurekanda. Fulltrúi sjúkrasjóðs verður þess áskynja að slysið hafi orðið á leið úr vinnu. Sjúkrasjóðsfulltrúi og þjónustufulltrúi eiga í framhaldi í samskiptum við atvinnurekandann vegna þessa og síðan fer málið áfram til lögmanna. Á öllum stigum var reynt að koma vitinu fyrir atvinnurekandann, án árangurs, segir hann.Karl segir að niðurstaða Hæstaréttar sé merkileg og mikilvæg bæði fyrir þær sakir að hér er skilgreint betur hvenær starfsmaður teljist vera á beinni leið frá vinnu í skilningi kjarasamnings, slegið er föstu að ákvæðið gildi vegna ferða til eða frá þeim stað sem starfsmaður sannanlega heldur heimili, þó svo að skráð lögheimili kunni að vera annars staðar og loks að ekki skuli beita frádrætti vegna launa frá þriðja aðila gagnvart slíkri kröfu.Nánar verður fjallað um dóminn í næsta Fréttablaði Eflingar.