Tónninn á ASÍ þinginu er samstaða um það sem máli skiptir, að leiðrétta kjör fólksins.

25. 10, 2018

Stefán Ólafsson svarar áróðri um kjör hinna verst settu

Ef laun verða hækkuð í þrjú ár um 42.000 krónur á ári, líkt og lesa má út úr kröfugerð Starfsgreinasambandsins, þá jafngildir það 6,5% meðalhækkun launa á ári. Þetta er meðal þess sem kom fram í fyrirlestri Stefáns Ólafssonar á 43. þingi Alþýðusambandsins í gær. „Þetta er nú ekkert sem minnir á sturlun,“ sagði hann sposkur, en miklar umræður og vangaveltur hafa spunnist af launakröfum SGS. Í síðustu viku birtist forsíðufyrirsögnin „Laun gætu hækkað um 150 prósent“ á Fréttablaðinu, svo ekki sé minnst á margumtalaðan leiðara blaðsins tveimur dögum síðar.

Kröfur SGS miða að 425.000 króna lágmarkslaunum, en í fyrirlestrinum rakti Stefán hvernig jafnvel slík laun myndu tæplega duga til að lifa við íslensk skilyrði. Margra ára niðurskurður á bótum frá ríkinu, færsla skattbyrðinnar á þá verst settu og miklu dýrara húsnæði hefur gert meintar ofurhækkanir lægstu launa undanfarin ár að litlu öðru en sárabótum.

Tölurnar sem Stefán setur fram eru sláandi. Á árunum 2010-2016 hækkaði húsnæðisverð um helming. Á sama tíma var húsnæðisstuðningur ríkisins ekki aukinn heldur skertur — um helming, sem hlutfall af landsframleiðslu. Húsnæðisverð hefur sem kunnugt er hækkað enn frekar síðan. Hópur þeirra sem þiggja barna- og vaxtabætur hefur sömuleiðis smækkað undanfarin ár — barnabótaþegum um 16% og vaxtabótaþegum um 44% á árunum 2012-2017.

Þannig hefur stuðningur við þá lægst launuðu minnkað á meðan útgjöld hafa aukist til muna. Þar með er þó ekki öll sagan sögð.

Á árunum 1988-1996 voru lægstu laun skattfrjáls. Þegar tími nýfrjálshyggjunnar hófst var þessu snarlega breytt. Nú er svo komið að yfir helmingur lágmarkslauna er skattaður til fulls. Þeir sem fá hæstar tekjur lifa hins vegar í öðrum heimi, því skattur á arðgreiðslur, leigutekjur og söluhagnað er aðeins 22%. Stefán segir í fyrirlestrinum:

„Láglaunamaður sem bætir við sig 150 þúsund á mánuði með aukavinnu greiðir 36,9% skatt af því en hátekjumaður sem bætir við sig fjármagnstekjum greiðir einungis 22% skatt af þeim!“

Ekkert útsvar er borgað af fjármagnstekjum, svo auðugir hópar leggja jafnvel enn minna til samfélagsins en þessar tölur gefa til kynna.

Svör Stefáns eru skýr og auðskilin. Lágmarkslaun þurfa aftur að verða skattfrjáls. Þetta má hæglega fjármagna, líkt og áður var, með því að setja eðlilega skatta á þá tekjuhæstu, skatta á borð við þá í öðrum Norðurlöndum. Stefán segir stjórnvöld hafa grafið stórlega undan árangri síðustu kjarasamninga. Þau þurfi að bæta úr því, annars verður að krefjast launahækkana fyrir þá verst settu af þeim mun meiri þunga.

Að sögn Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar var gerður góður rómur að erindi Stefáns. „Þarna er sýnt svart á hvítu að það er ekki hægt að lifa af lægstu launum og jafnvel ekki af hærri launum heldur. Krafa okkar um 425 þúsund króna lágmarkslaun miðað við núverandi skattkerfi og bætur nær ekki einu sinni að mæta framfærsluviðmiðum Velferðarráðuneytisins. Það þarf því bæði að hækka launin og gera löngu tímabærar endurbætur á skattkerfinu. Allt þetta er inni í kröfum okkar í Eflingu og þær eru endurspeglaðar í kröfugerðum SGS og verslunarmannafélaganna. Tónninn á ASÍ þinginu finnst mér vera samstaða um það sem máli skiptir, að leiðrétta kjör fólksins.“