Skertur trúverðugleiki Samtaka atvinnulífsins

26. 02, 2019

Efling – stéttarfélag lýsir undrun og vonbrigðum vegna villandi umfjöllunar Samtaka atvinnulífsins um launakröfur verkalýðsfélaga. Ekki er hægt að álykta annað en að um vísvitandi blekkingar sé að ræða, til þess fallnar að rýra traust milli viðsemjenda. Enn fremur hlýtur slíkur málflutningur að vekja stórar spurningar um trúverðugleika Samtaka atvinnulífsins í allri opinberri umræðu.

Frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins dags. 22. febrúar 2019 ber titilinn „Kröfur Eflingar um launahækkanir“. Í fréttinni er sú hækkun byrjunarlauna sem verkalýðsfélögin hafa krafist (425 þúsund) færð inn í nýja launatöflu og sú launatafla svo borin saman við núgildandi launatöflu. Leikurinn virðist til þess gerður að geta sýnt fram á að kröfur Eflingar feli í sér óhóflegar launahækkanir og hlutfallslega hæstar á jöðrum launatöflunnar. Þessi aðferð er byggð á fúski.

Í umræddri frétt samtakanna er að finna mynd sem ber titilinn „Launatafla miðað við kröfugerð Eflingar“. Þessi framsetning stenst enga skoðun, enda er hvergi í kröfugerð Eflingar sett fram útfærð tillaga að breyttri launatöflu. Rétt er að í viðræðum SA við SGS fyrr í vetur voru ræddar hugmyndir um breytt hlutföll innan launatöflu og tiltekin útfærsla á nýrri 10 flokka töflu lögð fram. Sú launatafla er ekki hluti af kröfugerð Eflingar og hefur aldrei borið á góma í viðræðum eftir að Efling dró samningsumboð sitt til baka frá SGS. Samtök atvinnulífsins kenna þessa framsetningu ranglega og gegn betri vitund við „kröfur Eflingar“ fremur en að viðurkenna að framsetningin er byggð á hugmyndum sem standa utan kröfugerðar og voru settar fram af Starfsgreinasambandinu.

Efling ítrekar að krafa félagsins er sú að launafólk geti lifað lægstu lágmarkslaunum. Er þess krafist að lágmarkslaun hækki á samningstímanum upp í 425 þúsund á mánuði. Þess er krafist að hækkanir lægstu launa séu í forgangi og að krónutöluhækkanir verði almenn regla. Þessar áherslur voru endurspeglaðar með skýrum hætti í gagntilboði sem Efling lagði fram ásamt samflotsfélögum til SA þann 15. febrúar síðastliðinn. Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu, hefur lýst inntaki gagntilboðsins á skilmerkilegan hátt í nýlegum pistli.

Samtök atvinnulífsins eru vel upplýst um hverjar kröfur Eflingar í yfirstandandi kjaraviðræðum eru, enda hafa þær ýmist legið fyrir opinberlega eða verið kynntar fyrir samtökunum með skýrum hætti á samningafundum í vitna viðurvist. Efling biður Samtök atvinnulífsins þess lengstra orða að rýra ekki eigin trúverðugleika og þar með kjarasamningaferlisins í heild með rangfærslum um afstöðu viðsemjenda. Efling krefst þess enn fremur að Samtök atvinnulífsins birti opinbera leiðréttingu á því sem ranglega er hermt upp á „kröfugerð Eflingar“.