Líf á lægstu launum og Fólkið í Eflingu hljóta viðurkenningu

26. 02, 2019

Fjölmiðlaverðlaun götunnar voru veitt í þriðja sinn sl. föstudag við hátíðlega athöfn í húsnæði Hjálpræðishersins. En þau eru veitt blaða- frétta- og fjölmiðlafólki fyrir málefnalegar og góðar umfjallanir um fátækt á Íslandi á árinu 2018.

Alda Lóa Leifsdóttir, blaðamaður, Sverrir Björnsson ráðgjafi, og auglýsingastofan Kontór hlutu viðurkenningu fyrir fyrir herferð Eflingar Líf á lægstu laununum.

Herferðin dregur upp raunsanna mynd af raunverulegum aðstæðum fólks sem býr við þann „ómöguleika“ að lifa af lægstu launum og lykilstaðreyndir um kjör og skattbyrði launafólks.

Þá hlaut Alda Lóa viðurkenningu fyrir vefsíðuna Fólkið í Eflingu þar sem er að finna tugi stuttra frásagna fólksins í Eflingu. Sögurnar hafa vakið mikla athygli og eiga sinn þátt í að efla vitund félagsmanna og styðja sókn til bættra kjara og aukins réttlætis í samfélaginu.

Á mynd má sjá Öldu Lóu, Sverri og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar að afhendingu lokinni.

Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru samstarfsverkefni EAPN og Pepp-samtaka nokkurra Evrópulanda og er verkefnið unnið að fyrirmynd systursamtaka í Austurríki, Die Armutskonferenz, sem hefur veitt samskonar verðlaun frá árinu 2011. Verkefnið heitir á frummálinu Journalismuspreis “von unten” (Journalism Prize from below, á ensku), sem hefur verið þýtt sem „Fjölmiðlaverðlaun götunnar“ þar sem það fellur að íslenskri málvenju.

Markmið verðlaunanna er að efla málefnalega umræðu um fátækt á Íslandi. Verðlaunin eru táknræns eðlis og eru viðurkenning fyrir það fjölmiðla-, blaða- og fréttafólk sem sinnir málstaðnum af kostgæfni og virðingu.

Hér má nálgast lista yfir tilnefningar.