Efling fagnar vel heppnuðum verkfallsdegi

Efling – stéttarfélag þakkar öllum sem saman lögðu hönd á plóg við að gera verkfall hótelþerna á alþjóðlega kvennafrídeginum 8. mars að einstaklega vel heppnuðum viðburði. Þernur á hótelum bæjarins lögðu upp til hópa niður störf og fjölmenntu í Gamla bíó þar sem andi baráttu og samstöðu sveif yfir vötnum í allan dag. Starfsfólk Eflingar tók þar á móti umsóknum um greiðslur úr vinnudeilusjóði auk þess sem hægt var að greiða atkvæði í yfirstandandi verkfallskosningu.

Í hádeginu tóku formaður og félagsmenn Eflingar þátt í dagskrá á Lækjartorgi þar sem áherslan var á hagsmunamál og baráttu verkakvenna. Að því loknu hélt dagskrá áfram í Gamla bíó þar sem félagsmenn Eflingar og fleiri góðir gestir héldu ávörp inni á milli tónlistaratriða. Klukkan 16:00 var efnt til kröfugöngu fram hjá helstu hótelum miðbæjarins, þar sem afar vel var mætt og baráttugleðin var í algleymingi eins og sjá má á myndum.

Á sama tíma sinnti starfsfólk Eflingar verkfallsvörslu á hótelum, en varslan fór fram í nokkrum teymum sem heimsóttu hótel samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun. Að sögn Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar var nokkuð um verkfallsbrot, en þó í langflestum tilvikum ekki umfangsmikil eða gróf. „Félagsmenn Eflingar og yfirmenn hótela virðast hafa verið nokkuð vel upplýstir um sín réttindi og skyldur,“ sagði hann. Hann sagði að almennt hafi verið vel tekið á móti verkfallsvörðum Eflingar og þeim veittur aðgangur til að skoða helstu rými í hótelum. Öllum tilfellum um verkfallsbrot verður safnað saman. Eftir helgi verður fundað með lögmanni Eflingar og mat lagt á næstu skref varðandi eftirfylgni.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagðist vera himinlifandi eftir daginn. „Það hefur verið sérstakt að hlusta á ýmsa karlkyns valda- og auðmenn gera lítið úr tilfinningum okkar láglaunakvenna í sambandi við þennan stórkostlega dag. Auðvitað kemur barátta okkar ekki til af góðu, en við munum ekki láta yfirstéttina neita okkur um stolt okkar og gleði yfir því að tilheyra baráttuhreyfingu. Við ætlum að breyta samfélaginu þannig að við njótum réttlætis, virðingar og sýnileika og við látum engan segja okkur fyrir verkum,“ sagði hún. „Ég vil þakka félagsmönnum okkar, hótelþernum og öllum sem komu til að sýna samstöðu, fyrir daginn.“

Eflingu barst fjöldi samstöðukveðja frá öðrum verkalýðsfélögum bæði innan lands og utan í tilefni dagsins, og þakkar Efling kærlega fyrir þessar dýrmætu kveðjur.