Efling þakkar veittan stuðning í baráttunni

13. 03, 2019

Eflingu-stéttarfélagi hafa borist fjölmargar stuðnings- og baráttukveðjur undanfarna daga og vikur. Niðurstöður atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir meðal starfsfólks á hótelum, í rútufyrirtækjum og hjá Almenningsvögnum Kynnisferða sýna á afdráttarlausan hátt að félagsmenn eru á einu máli um að aðgerða sé þörf. Mikinn meðbyr er líka að finna hjá fólki sem stendur utan við Eflingu.

Erlend stéttarfélög hafa sent félaginu stuðningsyfirlýsingar og skrifstofu Eflingar hefur borist mikill fjöldi tölvupósta, skilaboða og jafnvel heimsókna, þar sem fólk lýsir yfir stuðningi við baráttuna á ýmsan hátt.

Í gær komu á skrifstofuna eldri hjón sem ekki eru félagsmenn í Eflingu og gáfu peningagjöf að upphæð 100.000 kr. í verkfallsjóð. Lýstu hjónin, sem ekki vilja láta nafns síns getið, að þau vilji leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir að veita þeim lægst launuðustu, öryrkjum og eldri borgurum mannsæmandi líf. Vaxandi samstaða hefur orðið á milli Eflingar, Öryrkjabandalagsins og ellílífeyrisþega að undanförnu enda yfirlýst markmið baráttunnar fyrir betra lífi að allt fólk á Íslandi geti lifað mannsæmandi lífi.

Þessi rausnarlega gjöf hjónanna er þó ekki eini styrkurinn sem verkfallssjóðurinn hefur hlotið í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður. Á dögunum heimsótti skrifstofu Eflingar kona frá Milwaukee og styrkti sjóðinn um 20 dollara eftir að hafa heyrt af kröfum Eflingarfélaga í gegnum rútubílsstjóra sem hún ferðaðist með um landið.

Þó svo að verkfallsaðgerðir Eflingar nái til ferðaþjónustufyrirtækja hefur það sýnt sig að ferðamenn hafa oftar en ekki skilning á aðgerðunum og styðja kröfur Eflingar. Það er ekki gott fyrir orðspor Íslands út á við að í okkar ríka samfélagi sé stórum hópi fólks kerfisbundið haldið undir fátækramörkum. Þessu þarf að breyta. Efling þakkar innilega fyrir samstöðuna. Sameinuð stöndum við sterkari!