Jafnaðarsamningurinn 2019 – eftir Stefán Ólafsson

Almennt um kjarasamninginn

Nýr kjarasamningur verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur er um margt nýstálegur. Kjarabætur koma á óvenju fjölbreyttu formi og af því tilefni hafa margir kallað samninginn „lífskjarasamning“.

Ég tel hins vegar að megin einkenni samningsins og mesta nýmælið sé að hann er óvenju mikill jafnaðarsamningur. Kjarabætur eru mestar hjá þeim sem eru á lægri launum. Það gildir um launahækkanir, skattalækkanir, hækkun barnabóta og víðtækar umbætur í húsnæðismálum.

Í forsenduákvæði er þó einnig gert ráð fyrir að kaupmáttur meðallauna aukist.

Launahækkanir

Í fyrsta sinn koma launahækkanir á formi fastrar krónutölu er gengur upp launastigann, í stað hefðbundinna prósentuhækkana sem skila hærri launahópum fleiri krónum. Kauphækkunin verður því hlutfallslega mest í lægstu hópunum. Þeir sem eru á strípuðum taxtalaunum fá einnig meiri hækkanir en aðrir.

Þá er innleitt nýmæli sem felur í sér hagvaxtartengdar launahækkanir til viðbótar, fari hagvöxtur á mann yfir tiltekin mörk. Miðað við hagvaxtarreynslu frá 1990 til nútímans eru yfirgnæfandi líkur á að þetta skili umtalsverðum viðbótarhækkunum á samningstímanum.

Hættan á að kostnaður atvinnulífsins vegna umsamdra launahækkana verði sérstaklega íþyngjandi er lítil sem engin, vegna hóflegra hækkana í efstu tekjuhópum – en hálaunafólk hefur þegar fengið miklar hækkanir á síðustu árum.

Framlag ríkisins

Ríkið leggur að þessu sinni óvenju mikið af mörkum til að greiða fyrir gerð samningsins og vega 10.000 króna skattalækkanir til lágtekjufólks mest, en þær eru ígildi launahækkunar sem nemur 15.900 króna á mánuði (sjá kynningu hér).

Að auki hækkar ríkið barnabætur sem koma sérstaklega í hlut fjölskyldna með mjög lágar tekjur (ígildi 15.000 króna launahækkunar einstæðs foreldris tveggja barna sem er á lágmarkslaunum). Hjón á lágmarkslaunum fá 50% meira samanlagt. Fæðingarorlof er lengt úr 9 í 12 mánuði.

Öflugt átak til að auka byggingu nýrra íbúða fyrir láglaunafólk og úrræði innleidd til að styðja við fyrstu kaup og niðurgreiðslu lána miða að því að leiðrétta skekkju í framboði húsnæðis og ofurhækkanir sem óheftur markaður hefur innleitt á síðustu árum.

Stjórnvöld munu einnig beita sér fyrir lagasetningu um hömlur á óhófshækkanir húsaleigu (leigubremsu) og gera refsiverð svik atvinnurekenda er skirrast við að greiða starfsfólki sínu réttmæt umsamin laun. Margþætt önnur réttinda- og umbótaúrræði er að finna í aðgerðapakka stjórnvalda, ekki síst gegn félagslegum undirboðum. Allt er það mikilvægt.

Skilyrði til vaxtalækkana og hömlur á verðtryggingu lána

Hófleg hækkun launa á fyrsta ári samningsins skapar að mati samningsaðila góð skilyrði til lægra verðbólgustigs og vaxtalækkana, sem er mikið hagsmunamál fyrir bæði heimilin og fyrirtækin.

Þetta er sérstaklega mikilvægt hagsmunamál fyrir ungt fjölskyldufólk sem glímir við mikla skuldabyrði, vegna óhófshækkana á húsnæðisverði á síðustu árum. Ef slík lækkun skilar sér ekki, að óbreyttum skilyrðum, þá er samningurinn uppsegjanlegur í september 2020 eða 2021.

Þá lofa stjórnvöld að hamla notkun nýrra verðtryggðra neyslulána og taka húsnæðisliðinn út úr nýjum neyslulánum frá og með næstu áramótum.

Sveigjanleiki til vinnustaðasamninga aukinn

Ýtt er undir aukinn sveigjanleika til samninga á vinnustöðum um breytta skipan vinnutíma, sem getur leitt til styttingar viðveru á vinnustað úr 40 í 36 stundir á viku, í ítrustu dæmum.

Hverjar eru kjarabætur láglaunafólks í heild?

Ljóst er að ef meta á hverju samningurinn skila láglaunafólki til kjarabóta þá þarf að taka tillit til sem flestra þátta hans, ásamt beinum launahækkunum.

Í töflunni hér að neðan er þetta gert, með samanburði á þróun lágmarkslauna á samningstímabilinu 2015 til 2018 við nýja samninginn sem gildir frá 2019 til 1. nóvember 2022.

Launahækkanir þóttu góðar í síðasta kjarasamningi en hins vegar skemmdi aukin skattbyrði og rýrnun barnabóta ávinning láglaunafólks af samningnum þá. Tryggt er að ekkert slíkt gerist núna, heldur þvert á móti bæta fyrirhugaðar skattalækkanir og auknar barnabætur kjör þeirra lægst launuðu svo um munar.

Sýnd er heildarhækkun lágmarkslaunatryggingar á báðum tímabilum (2015-2018 og 2019-2022) og bætt við hagvaxtartengdum launahækkunum og ígildi launahækkana sem skattalækkunin og hækkun barnabóta nú skila láglaunafólki á samningstímabilinu í heild.

Hækkanir lágmarkskjara á samningstímabilinu og samanburður við síðasta kjarasamning

Sviðsmyndir:  Hagvaxtarauki I Hagvaxtarauki II Hagvaxtarauki III
Lágmarkslaun, hækkun 2015-2018 86.000 86.000 86.000
Lágmarkslaun, hækkun 2019-2022 68.000 68.000 68.000
Viðbætur nú:
Með hagvaxtartengdri launahækkun 9.000 19.000 24.000
Með hækkun barnabóta 15.000 15.000 15.000
Með skattalækkun upp á 10.000 kr. 15.900 15.900 15.900
Samtals 2019-2022 107.900 117.900 122.900
Munur hækkana milli samningstímabila 21.900 31.900 36.900
ATH: Kjarabætur vegna hugsanlegra vaxtalækkunar eru ekki meðtaldar
Skýringar á sviðsmyndum:
Hagvaxtarauki I – Þrjú ár með 1% hagvexti á mann
Hagvaxtarauki II – Tvö ár með 1,5% vexti og eitt ár með 2%
Hagvaxtarauki III – Eitt ár með 1,5%, annað með 2% og eitt með 2,5%
Tölur um hækkun barnabóta og skattalækkun eru reiknaðar yfir í ígildi launahækkana. Þeir sem eru á strípuðum töxtum fá þessa hagvaxtartengdu launahækkun til fulls en aðrir frá 75% af henni. Ekki er gert ráð fyrir hagvaxtaraukningu fyrir árið 2019

Lágmarkslaunatryggingin hækkaði um samtals 86.000 krónur á síðasta samningstímabili, úr 214.000 í 300.000 kr. á mánuði. Nú hækkar hún minna, eða um 68.000 krónur samtals og endar í 368.000 á síðasta ári samningsins. Hækkanir á strípaða taxta eru hærri, eða um 90.000 kr. á tímabilinu.

Hins vegar skila skattalækkunin og hækkun barnabóta láglaunafólki samtals ígildi launahækkunar um 30.900 krónur til viðbótar og að auki koma hagvaxtartengdar launahækkanir. Miðað við reynslu síðustu þriggja áratuga er líklegast að sviðsmynd II (Hagvaxtarauki II í töflunni) verði niðurstaðan, með 19.000 króna viðbótar launahækkun.

Ef það verður niðurstaðan munu kjörin hafa batnað um ígildi 117.900 króna launahækkunar. Krafa verkalýðsfélaganna var að ná fram 120.000 króna launahækkun á þremur árum.

Eins og taflan sýnir er kjarabati þeirra sem hafa laun nærri lágmarkslaunatryggingunni (sem er 300.000 krónur áður en nýi kjarasamningurinn tekur gildi) frá 21.900 til 36.900 krónum meiri en var á síðasta samningstíma. Framlag stjórnvalda á stóran þátt í að tryggja þessa hagstæðu útkomu.

Ekki eru meðtaldar í töflunni kjarabætur heimilanna vegna hugsanlegrar vaxtalækkunar.

Ég tel að þessi útkoma sýni gjörla hversu mikil tímamót eru falin í þessum kjarasamningi.

Ný forysta með nýjar leiðir nær árangri

Nú er sýnt að ný forysta í verkalýðshreyfingunni hefur náð góðum árangri. Grundvöllur þess var lagður með frumlegri og snjallri kröfugerð, sem í senn beindist að atvinnurekendum og stjórnvöldum.

Órofa samstaða meðal verslunarfólks og verkafólks, undir nýrri forystu, gerði gæfumuninn. Staðföst þrautseigja og snjöll beiting verkfallsvopnsins sköpuðu þrýstinginn sem til dugði.

Samningurinn felur í sér víðtækar umbætur í samfélagsmálum og leggur að auki sitt af mörkum til að draga úr landlægu tillitsleysi fjármálageirans gagnvart hagsmunum heimila og smærri fyrirtækja.

Jafnaðarsamningurinn er lífskjarasamningur – og lífskjarasamningurinn er jafnaðarsamningur.

Á hvorn veginn sem það er skilgreint er ljóst að hér hafa orðið tímamót í kjaraþróun landsmanna.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu – stéttarfélagi