Launakröfur 2018 námu 233 milljónum

10. 04, 2019

Í fyrra gerði Efling 550 kröfur vegna vangoldinna launa, eða um tvær hvern virkan dag ársins. „Þetta er langmest í veitingabransanum,“ segir Tryggvi Marteinsson, kjaramálafulltrúi, „og meira en nokkru sinni áður. Við erum að slá met á hverju ári í fjölda bréfa sem við sendum.“

Að meðaltali eru kröfurnar upp á 423 þúsund krónur, sem er litlu undir meðaltali mánaðarlauna félagsmanna í Eflingu. Í heild nema kröfurnar 233 milljónum.

„Þetta er peningurinn sem er af einskærri ósvífni stolið af félagsmönnum okkar,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Með einbeittum brotavilja, oftar en ekki.“

„Þetta eru mikið til sömu fyrirtæki og við rukkuðum árið á undan,“ segir Tryggvi. „Það er mikil þörf á að gera þessa háttsemi refsiverða.“

Ríkisstjórnin segir að löggjöf sé í bígerð þar sem heimilað verður að sekta fyrir brot á kjarasamningi. „Forsenda þess að kjarasamningarnir haldi eru að þessi loforð verði efnd,“ segir Sólveig. „Við erum með augun á þessu atriði, sérstaklega. Það er ekki í lagi að atvinnurekendur geti leikið sér með að stela af fólki laun. Þetta er einfaldlega glæpsamlegt.“

Veitingahúsum hefur fjölgað mikið undanfarin ár, og eru þau mönnuð ungu starfsfólki, mörgum erlendisfrá. Vinnustaðaeftirlit Eflingar hefur beint spjótum að geiranum sérstaklega, en alls var farið á 837 vinnustaði í fyrra.