Baráttan snýst á endanum um frelsi

– segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar

Sólveig Anna Jónsdóttir, kom sem stormsveipur inn í íslenska verkalýðsbaráttu þegar hún og hennar listi vann yfirburðasigur í kosningum til stjórnar félagsins í apríl í fyrra. Hún fór frá því að starfa á leikskóla borgarinnar yfir í að stýra öðru stærsta stéttarfélagi landsins og standa í hörðum kjaraviðræðum og verkfallsátökum við SA. Nú þegar fyrsta starfsári hennar sem formaður er að ljúka er ekki úr vegi að setjast niður með henni og spyrja hana út í hvernig fyrsta árið hafi verið, um kjaraviðræðurnar og verkfallsátökin og eins hvaða breytingar hún vilji sjá í íslensku samfélagi til að verkafólk geti lifað mannsæmandi lífi.Þegar Sólveig Anna tók við formennsku í Eflingu-stéttarfélagi hafði hún starfað á leikskólanum Nóaborg í að verða tíu ár. Aðspurð um muninn á starfi sínu nú og þá segir hún að það hafi í raun fylgt því ótrúlega mikið frelsi að vinna á leikskóla. „Það er ákveðið frelsi í samskiptum við börn, þetta eru innileg og náin samskipti, eins og góð mannleg samskipti eiga að vera. Það þarf að bregðast við þörfum lifandi fólks, taka ákvarðanir sem varða stóra hópa og gæta að réttlæti og sanngirni og því að jöfnuður ríki, þrátt fyrir að barnahópurinn sé samansettur af ótrúlega ólíkum manneskjum. Það þarf að gæta þess að öll börnin fái það sama, gæta þess að þörfum allra sé sinnt.“ Hún segir að í starfi með börnum, eins og í leikskóla, sé markviss þjálfun í þessum hugsunarhætti. „Það er líka ákveðið frelsi í því að eyða hluta af starfstímanum úti við, það er að mínu mati ómetanlegt sem og að fá að vera í söng, lestri, útiveru, listsköpun og hvíld með fullt af öðrum lifandi manneskjum.“ Hún segir að það hafi verið „litlu hlutirnir“ við starfið, það að aðstoða börnin að leysa úr vandamálum og verkefnum, vera í góðum félagslegum samskiptum og útkljá deilumál, sem hafi verið svo nærandi.„Þetta er ástæðan fyrir því að ég elskaði vinnuna mína þó ég hataði launin og var reið út í þessa mannfjandsamlegu stefnu sem að borgin rekur, að halda að það væri hægt að komast upp með að sýna ekki starfsfólki þá virðingu sem það á sannarlega skilið og halda þessum störfum á útsölumarkaði.“ Sólveigsegir að miðað við nýjustu fréttir þá hyggist borgin ætla að halda sig við þá stefnu. Á hún þar við fréttir um að svokölluð áhættumatsdeild fjármálaskrifstofu borgarinnar spái versnandi afkomu í kjölfar falls Wow og samdrætti í rekstri. „Ég held að því miður verði ákveðið að skera niður þar sem síst má skera niður. Það er ekkert sem bendir til þess að borgaryfirvöld muni hafa hagsmuni vinnuaflsins í fyrirrúmi, þegar við horfum yfir síðustu ár. Góðærið sem fylgdi þessum mikla vexti í ferðamannabransanum var ekki notað til að tryggja betri afkomu láglaunakvenna í borginni, ekki notað til að bæta úr húsnæðiskrísunni. Þvert á móti var ráðist í alls konar lúxusverkefni þar sem engar reglur virðast gilda um útgjöld. Ég hef miklar áhyggjur af því að borgin og aðrir noti samdráttinn í efnahagskerfinu til að halda áfram með innleiðingu nýfrjálshyggjunnar. En þá skiptir auðvitað þeim mun meira máli að ég og félagar mínir stöndum okkur í því verkefni sem við höfum tekið að okkur.“Það hafa því verið töluverð viðbrigði fyrir Sólveigu þegar hún tók við sem formaður. „Að fara úr þessum samskiptum við foreldra, samstarfsfólk og börn þar sem markmiðið allra var að tryggja góða útkomu yfir í að vera formaður stéttarfélags er ótrúlega mikil breyting.“ Hún segir að þó hún hafi verið búin að gera sér grein fyrir því að þetta yrði gífurleg breyting hafi alltaf verið og sé enn partur af henni sem er hikandi við þetta. „Ég tapa miklu af frelsi mínu, frelsi til að lifa bara á eigin forsendum en það er svo auðvitað það sem baráttan snýst á endanum um að mínu mati; alvöru manneskjulegt frelsi sem snýst um að vera í góðu sambandi við sjálfa þig og fá að blómstra frjáls undan vinnuálagi og áhyggjum, undan kapítalísku ofríki og auðvaldi.“

Sólveig Anna Jónsdóttir þegar hún var nýtekin við sem formaður Eflingar á aðalfundi félagsins í apríl í fyrra
Kjaraviðræðurnar voru langar og strangar en þeim lauk með undirritun samninga þann 3. apríl. En hvernig fannst Sólveigu að koma þar að borðinu? „Þetta var mjög áhugavert og brjálæðislega lærdómsríkt, að koma inn sem reynslulaus manneskja. Ég hef tekið þátt í félagsstarfi og alls konar aktívisma og er reynslumikil þaðan, en að vera svo komin við borð með raunveruleg völd er mjög skrýtið. Ég held að fólk geti ekki ímyndað sér það, það verður að upplifa það í eigin persónu.“ Eins og fyrr segir drógust viðræðurnar á langinn og var Efling í harðri baráttu á öllum vígstöðvum. „Það voru stöðugar árásir frá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, hatrammar og sturlaðar árásir þar sem ég og mitt samstarfsfólk var dregið upp sem eitthvað hryðjuverkafólk.“ Hún segir það að sumu leyti hafa á undarlegan hátt verið gefandi að fylgjast með þessari umræðu. „Það er áhugavert að sjá fólk sem tilheyrir valdastétt og fer með pólitískt dagskrárvald í samfélaginu, sem telur sig málsvara lýðræðis en opinberar afturhaldssinnaða afstöðu sína gagnvart láglaunafólki. Það er tilbúið að segja fólki að halda sig til hlés og taka við þeim brauðmolum sem efnahagsleg forréttindastétt skilur eftir.“ Sólveig segir að þetta geri ekkert annað en að opinbera innræti þessa fólks. „Við fengum að sjá hið sanna og rétta eðli nýfrjálshyggjunnar á Íslandi og það var fyrir mig sem áhugamanneskju um kúgunareðli auðvaldskerfisins í raun mjög spennandi.“Í fyrsta sinn síðan á níunda áratug síðustu aldar fór Efling í verkfallsaðgerðir en aðgerðirnar tóku til fólks sem starfaði á hótelum og rútufyrirtækjum. „Það var stórkostlegt að sjá eldmóð og baráttuvilja fólks, þar sem sum hver eru ekki aðeins að berjast fyrir hærri launum og betri efnahagslegri afkomu heldur einnig fyrir lýðræði og að fá að taka þátt í ákvörðunum sem snúa að vinnu þeirra.“ Sólveig segir það hafa verið áfall að sjá með beinum hætti þann raunverulega aðskilnað sem ríkir á ýmsum vinnustöðum, á milli aðflutts verkafólks og Íslendinga. Hún hafi fyrir löngu verið farin að hugsa um stöðu aðflutts vinnufólks en að sjá með augljósum hætti bilið á milli aðflutts vinnuafls og Íslendinga í aðdraganda og í kjölfar aðgerðanna hafi engu að síður verið mjög afhjúpandi. „Ég varð t.d. vitni að því að á fundi hjá Kynnisferðum þar sem tilkynnt var um fjöldauppsögn að það var bara gert á íslensku þrátt fyrir stóran hóp starfsfólks af erlendum uppruna. Engin tilraun var gerð til að túlka. Ég varð eiginlega orðlaus við að verða vitni að svona framkomu. Að sjá refsiaðgerðir í kjölfar verkfallanna er auðvitað sérstaklega ógeðslegt. Þrátt fyrir að samningar hafi tekist voru engu að síður atvinnurekendur sem fundu sig knúna til að refsa starfsfólki, hafa mætingarbónus af fólki eða koma sér undan því að greiða þeim laun sem ekki voru á vakt verkfallsdagana og beina þeim á verkfallssjóðinn. Það stenst enga skoðun og hlýtur tilgangurinn að vera að senda skilaboð, bæði til starfsfólksins og okkar í félaginu um að þeir ætli sér ekki að spila eftir okkar leikreglum.“ Hún segir að baráttan snúist um leikreglurnar í samfélaginu, hverjir fái að ákveða þær.
Sólveig Anna Jónsdóttir og Anna Marta Marjankowska, í stjórn Eflingar, í Gamla Bíó á Kvennadeginum 8. mars sl.
„Við höfum þurft að sætta okkur við það að yfirstéttin, kapítalistarnir, setji alltaf reglurnar og hafi það vald, sem er óþolandi. Þeim stendur á sama um afkomu lágtekjufólks, þeir vilja aðeins aðgang að ódýru vinnuafli.Við þurfum því að ákveða hvort við ætlum að halda áfram að berjast einbeitt og skipulögð fyrir því að fá að semja okkar eigin leikreglur og fyrir því að ákvarðanir verði ekki teknar nema að afkoma og tilvera verka- ogláglaunafólks sé alltaf höfð í fyrirrúmi. Það er augljóst að þær leikreglur sem hér hafa fengið að viðgangast eru útbúnar í þeim einum tilgangi að tryggja áframhaldandi yfirráð auðstéttarinnar og þess vegna ber okkurað hafna þeim.“ Sólveig segir að þarna sé t.d hægt að horfa á skattkerfið á Íslandi og þróun þess. Efling hafi háð baráttu fyrir því að skattkerfið yrði sannarlega tæki til endurúthlutunargæðanna en það sé aðeins mögulegt með því að hafa skattbyrði verulega háa á fjarmagnstekjur og þá sem eiga mest. „Eins og Stefán Ólafsson og fleiri hafa bent á hefur þróunin verið akkúrat öfug, skattbyrðin hefur aukist á láglaunafólk í þeim einum tilgangi að létta henni af hátekjuhópnum og þó munurinn á tekjum fólks sé kannski ekki mikill á Íslandi í alþjóðlegum samanburði þá er eignadreifingin aftur á móti mikil og grafalvarleg. Það er því merkilegur áfangasigur að fá þessa lækkun skattbyrðarinnar upp á 10.000 krónur fyrir lágtekjuhópana og við eigum að fagna því og hrósa okkur fyrir. Við hefðum aldrei náð þessari stefnubreytingu í gegn nema fyrir það að við vorum vakin og sofin að benda á þetta. Þetta var eitt af stóru málunum sem yrði að lagfæra ekki seinna en núna.“Sólveig segir að það megi ekki gleyma því að verkföllin séu óumdeilanlegur réttur verkafólks til að knýja á um breytingar sökum þess að verkafólk áður hafi fært geigvænlegar fórnir. „Fólk vann óbærilega langan vinnudag, börnin voru notuð sem ódýrt vinnuafl, fólk hafði ekki aðgang að menntun, húsnæði, heilbrigðisþjónustu og bjó við lélegan kost. Það þurfti að þola svívirðingar og skepnuskap atvinnurekenda og yfirvalda en barðist og barðist og gafst aldrei upp. Þessi meðfædda þrá mannkyns að lifa í réttlæti er ódrepanleg, sama hverjir komast til að valda og hvaða tæki og tól eru notuð til að þrýsta fólki niður. Þá er það eðlislæg þrá manneskjunnar að lifa frjáls. Fólk er tilbúið til að færa fórnir ef það sér fyrir sér að takmarkið er betra og réttlátara líf.“Hún segir að á tímum nýfrjálshyggjunnar hafi getan og leyfið til útópískrar hugsunar verið tekin af fólki. Það hafi átt að láta sig dreyma um þúsundkalla hér og þúsundkalla þar í stað þess að dreyma um grundvallarbreytingar á samfélaginu til að sleppa undan oki þeirra sem fara með völd. „Það er einn merkilegasti árangur nýfrjálshyggjutímans að við lærðum að sætta okkur við að stéttasamvinna væri eina leiðin, að til þess að fá eitthvað þyrftum við að sýna undirgefni og algjöran vilja til stéttasamvinnu. Draumurinn um eitthvað stórt og merkilegt, um raunverulegt frelsi var tekinn í burtu.“ Hún segir skammarlegt að hugsa til að þess að sjálft verkamannabústaðakerfið hafi verið lagt af. Þar var á einu augabragði horfið frá þeirri hugsun að það væri eðlileg krafa að öllum væri tryggt húsnæði á viðráðanlegu verði. „Ef við setjum húsnæðismálin, sem eru grundvallarmannréttindi, í hendurnar á markaðnum fáum við útkomuna sem við sjáum í dag. Fólk á hrakhólum, þúsundir búa í iðnaðarhúsnæði, þar af fjöldi barna sem hafa ekki einu sinni aðgang að hreinlætisaðstöðu, 900 manneskjur á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni, þar af fjöldi einstæðra mæðra í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Vegna þessa glæpsamlega ástands fer risastór hluti ráðstöfunartekna láglaunafólks beint í vasann á einhverjum öðrum. Hér sjáum við grimmd auðvaldssamfélagsins með sem skýrustum hætti. Bara þetta dæmi sem snýr að húsnæðismálum, sýnir að ef við missum þessi grundvallarmál úr höndunum á okkur endum við á hrikalegum stað sem er mjög erfitt að komast af. Ef við leyfum því að gerast að fólk sem hefur sýnt og sannað að hagsmunir vinnuaflsins skipta það engu, að því er alveg sama hvort fólk sé í tveimur vinnum bara til að sjá fyrir sér og börnum sínum, fær áfram að hafa öll völd yfir lífi okkar veit ég ekki hvernig fer fyrir okkur. Þess vegna skiptir öllu máli að verkalýðshreyfingin og vinnuaflið standi föst fyrir. Tími þeirra sem hafa þessar mannfjandsamlegu hugmyndir um samfélag sem einhverskonar gróðastýrt fyrirtæki er liðinn. Við verðum að vera tilbúin til að leggja mjög mikið í sölurnar til að áframhaldandi pólitísk og efnahagsleg forréttindastétt sem hugsar aðeins um hagsmuni þeirra ríku komist ekki upp með að hafa öll völd á landinu.“
Það var mikil baráttugleði í verkföllum Eflingar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars sl.
Að lokum berst talið að nýundirrituðum kjarasamningi sem Sólveig kallar vopnahléssamning. „Við náðum mörgu sem við börðumst fyrir í gegn og það sem ríkisvaldið kom með að borðinu að lokum skipti auðvitaðmiklu máli. Með baráttu okkar knúðum við það fram að stjórnvöld urðu að mæta kröfum okkar að einhverju leyti og viðurkenna að þeim bæri skylda til þess að taka í taumana á húsnæðismarkaði og á fleiri stöðum. Það er að mínu mati mikill pólitískur sigur. En þetta er vopnahléssamningur, við erum vakin og sofin áfram í þessari baráttu.“„Í aðdraganda 1. maí verðum við að minna okkur sjálf á að á meðan við búum í þessu kerfi þar sem valdaójafnvægi milli fólks er svo augljóst og svo gífurlega mikið, þar sem verkafólk hefur enga lýðræðislega stjórn yfir vinnustöðum sínum, þar sem það verður einfaldlega að vinna til að lifa og hefur í raun bara þetta eina hlutverk; að selja aðgang að vinnuafli sínu og láta sér það nægja sem því er afhent, þá mun kerfið stýra tilveru okkar. Ef við ákveðum ekki sameinuð að við viljum breytingar, þá munum við verða föst í því að heyja alltaf sömu baráttuna, sem snýst um grundvallar mannréttindi, eðlilegan vinnutíma, húsnæði og laun sem duga til að komast af. Þetta er ástæðan fyrir því að 1. maí er ennþá þessi mikli baráttudagur um heim allan. Á meðan andstæðurnar eru svona ótrúlega miklar á milli þeirra sem eiga atvinnutækin og fjármagnið, eiga í raun allt samfélagið og svo þeirra sem tilheyra stétt vinnuaflsins og eru föst í kerfi sem byggir á misskiptingu og arðráni, eigum við engra annarra kosta völ en að halda áfram að berjast.“