Brotastarfsemi á vinnumarkaði – ábyrgð eða undanskot?

Grein eftir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar birt í Fréttablaðinu 9.júlí 2019.

Með efnahagssamruna innan Evrópu hefur starfsmannaleigum með innflutt verkafólk fjölgað. Starfsmannaleigur nýta sér aðstöðumun milli atvinnusvæða EES, með því að flytja vinnuafl frá láglaunasvæðum til hærra launaðra svæði þar sem eftirspurnin eftir ódýru vinnuafli er mikil.

Hjá starfsmannaleigum eru ekki bara greidd lægstu mögulegu laun heldur er iðulega reynt að gefa enn frekari afslátt af lágmarksréttindum, í trausti þess að innflutt vinnuafl sé verr upplýst um réttindi sín og sæki þau síður. Þetta skapar neikvæðan þrýsting á laun og aðbúnað alls launafólks í viðkomandi landi, og grefur undan margvíslegum réttindum á vinnumarkaði sem tekist hefur að tryggja með baráttu í gegnum tíðina.

Vitund og orðspor

Mikil vitundarvakning varð í íslensku samfélagi um starfsemi starfsmannaleiga í október á síðasta ári, þegar fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV birti ítarlega umfjöllun undir heitinu „Svarta hliðin á íslenskum vinnumarkaði.“ Ein starfsmannaleigan sem þar var fjallað um nefnist Menn í vinnu, en að baki henni standa aðilar sem á síðustu árum hafa tengst fleiri starfsmannaleigum undir öðrum nöfnum og kennitölum. Einn forveri Manna í vinnuVerkleigan, var drifin í gjaldþrot í maí árið 2018 vegna launakrafna sem Efling setti fram fyrir hönd 78 Eflingarfélaga upp á samtals 24 milljónir.

Eftir að starfsmannaleigur og ill meðferð þeirra á innfluttu starfsfólki komust í hámæli vegna Kveiks-þáttarins vöknuðu margir atvinnurekendur af værum blundi. Þeir sem keypt höfðu þjónustu af starfsmannaleigum, svokölluð notendafyrirtæki, tóku við sér. Sum notendafyrirtækin sem nefnd voru á nafn í Kveiksþættinum – stórfyrirtæki eins og Samskip og Brimborg – voru ósátt, önnur leituðust við að taka til í sínum málum. En niðurstaðan í kjölfar Kveiksþáttarins var skýr: Fyrirtæki sem láta bendla sig við brotastarfsemi á vinnumarkaði með því leigja ódýrt vinnuafl af starfsmannaleigum geta þurft að mæta harðri gagnrýni og orðsporsmissi.

Notendafyrirtæki bera fulla sök

Það er þó ekki aðeins almenningsálitið og samfélagsumræðan sem hefur dregið úr umburðarlyndi gagnvart notendafyrirtækjum starfsmannaleiga, löggjafinn hefur einnig beitt sér með innleiðingu svokallaðrar „keðjuábyrgðar“. Árið 2018 voru ákvæði laga nr. 139 frá 2005 um starfsmannaleigur styrkt þannig að notendafyrirtækið ber nú „óskipta ábyrgð á vangoldnum lágmarkslaunum sem og öðrum vangreiðslum vegna starfsmanna starfsmannaleigu.“

Þetta merkir að notendafyrirtæki geta ekki borið fyrir sig fákunnáttu eða upplýsingaskorti ef upp kemst um réttindabrot hjá starfsmannaleigunni: þau bera fulla sök til jafns við hana. Ekki hefur enn verið látið reyna á þessa óskiptu keðjuábyrgð fyrir dómi á Íslandi, enda lögin ný.

Launafrádráttur sem svikamylla

Í ljósi innleiðingar hertra laga og mikillar vitundarvakningar haustið 2018 sætir mikilli furðu að nokkur íslensk fyrirtæki hafi haldið áfram að leigja starfsmenn af Mönnum í vinnuMenn í vinnu komust aftur í fréttirnar í febrúar 2019 þegar rúmenskir starfsmenn fyrirtækisins upplýstu um illa meðferð, hótanir um að missa húsnæði og laun og fleiri réttindabrot. Átta menn bjuggu saman í herbergi og greiddu líklega fyrir það samanlagt tæpa hálfa milljón á mánuði. Þessi húsaleiga var dregin frá launum þeirra á launaseðli, ásamt fleiri frádráttarliðum, samtals að upphæðum sem nema á þriðja hundrað þúsund af mánaðarlaunum hvers starfsmanns.

Ljóst er að þessi mikli launafrádráttur er svikamylla sem starfsmannaleigan hefur sett upp til þess að koma sér hjá því að greiða lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum. Á meðan forveri Manna í vinnuVerkleigan, borgaði einfaldlega ekki laun þá hafa Menn í vinnu lært af reynslunni eftir harðfylgni lögmanna Eflingar og greiða nú rétt laun á pappírnum – lágmarkslaun samkvæmt töxtum eru gefin upp á launaseðli – en nýta sér frádráttarliði kerfisbundið til að svíkja launin til baka af starfsmönnum. Að greiða laun á þennan hátt er í andstöðu við allar venjur og siðferði sem og lög um greiðslu verkkaups frá árinu 1930, en það var á sínum tíma mikið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar að verkafólk fengi laun sín greidd í peningum en ekki í úttektum sem atvinnurekandi ákveður einhliða.

Þá virðist sem það samband sem myndaðist milli atvinnurekanda og starfsmanna í tilfelli Manna í vinnu eigi meira skylt við ánauð en frjálsan vinnumarkað. Nauðung og þvinganir virðast þar hafa verið daglegt brauð. Starfsmenn áttu allt sitt lífsviðurværi og bjargir undir fyrirtækinu, sem narraði þá til Íslands í húsnæði og vinnu með gylliboðum. Um leið og starfsmennirnir mynduðust við að sækja lögvarin réttindi sín nýtti fyrirtækið sér aðstöðumun og ofurvald til að þvinga þá til hlýðni. Að setja starfsfólk í slíka aðstöðu er ekki ásættanlegt á vinnumarkaði. Það heitir nauðungarvinna.

Viðskiptum við Menn í vinnu haldið til streitu

Því miður sýnir tilfelli rúmensku verkamannanna, sem notendafyrirtæki réðu í störf árið 2019 þrátt fyrir rækilega afhjúpun í október 2018, að vitundarvakning og lagasetning duga ekki til þegar brot á vinnumarkaði eru annars vegar. Þeir atvinnurekendur eru til sem kjósa að horfa framhjá staðfestri brotastarfsemi eða einfaldlega láta sér hana í léttu rúmi liggja, og halda til streitu viðskiptum við alræmd brotafyrirtæki. Einn þessara atvinnurekenda er Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Eldum rétt.

Efling hefur tekið þá afstöðu að standa ekki aðgerðalaus á meðan notendafyrirtæki viðhalda eftirspurn eftir nauðungarvinnu og annarri brotastarfsemi, sem á endanum grefur undan öryggi, réttindum og velferð allra sem starfa á íslenskum vinnumarkaði. Af þeim sökum fól Efling lögmannsstofunni Rétti að gera kröfu ekki aðeins á hendur Mönnum í vinnu og forsvarsmönnum fyrirtækisins heldur einnig á hendur notendafyrirtækjum, með vísun í áðurnefnda keðjuábyrgð.

Allir gengust við ábyrgð – nema Eldum rétt

Þann 17. apríl síðastliðin birti Réttur fjórum notendafyrirtækjum sem notfærðu sér þjónustu Manna í vinnu kröfubréf. Þar var krafist greiðslu á vangoldnum launum, ólögmætum frádrætti og hóflegs innheimtukostnaðar. Af fjórum notendafyrirtækjum svöruðu þrjú þeirra innan uppgefins frestar og sýndu fullan samstarfsvilja. Því ber að fagna og er það vonandi til marks um hið almenna viðhorf flestra íslenskra fyrirtækja til brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Eina fyrirtækið sem ekki sinnti kröfunni innan uppgefins frests var Eldum rétt. Þegar svar loksins barst var það höfnun, rituð af lögmanni félagsins. Ljóst er að Eldum rétt virðist sýna Mönnum í vinnu mikið traust, og hefur framkvæmdastjórinn marglýst því yfir að hann telji að aðstæður mannanna sem hjá honum unnu hafi verið í góðu lagi.

Sáttatilboði hafnað

Efling stendur fast á því að starfsmenn Manna í vinnu hafi verið órétti beittir og sættir sig ekki við að Eldum rétt skjóti sér undan ábyrgð sinni sem notendafyrirtæki. Því heldur Efling kröfu sinni til streitu, enda um mikilvæg prófmál að ræða sem getur sýnt fram á hversu mikla vernd keðjuábyrgð notendafyrirtækja veitir í raun. Þann 27. júní þingfesti Réttur stefnu á hendur Eldum réttMönnum í vinnu og forsvarsmönnum Manna í vinnu þar sem krafa er gerð á hendur öllum aðilum til jafns um að standa skil á vangoldnum launum og ólögmætum frádrætti auk miskabóta að upphæð 1.500.000 vegna nauðungavinnu og vanvirðandi meðferðar.

Framkvæmdastjóri Eldum rétt óskaði eftir fundi með Eflingu í síðustu viku eftir að stefnan var þingfest. Efling taldi að tilgangur þess fundar væri að ræða um lausn á málinu, án þess að það færi fyrir dóm, og lagði fram sáttatilboð sem falið hefði í sér að Efling drægi stefnu á hendur Eldum rétt til baka. Efling myndi lýsa því yfir að fyrirtækið hefði gert hreint fyrir sínum dyrum en á móti myndi Eldum rétt greiða starfsmönnunum bótaupphæð sem nemur helmingi upphaflegrar miskabótaupphæðar auk vangoldinna launa, ólögmæts frádráttar og hlutdeildar í lögfræðikostnaði. Þessu hafnaði Eldum rétt, enn á ný með sömu hártogunum og forsvarsmenn starfsmannaleigunnar.

Öðrum kennt um

Eldum rétt hefur í kjölfarið sent frá sér yfirlýsingar og ummæli þar sem Efling er sökuð um að beita fyrirtækið „harðræði“ og tölvupóstsamskipti undirritaðs við Kristófer framkvæmdastjóra Eldum rétt send fjölmiðlum til birtingar. Er gefið í skyn að með tilboði um sættir og lækkun á miskabótakröfu hafi Efling á einhvern hátt gert á hlut Eldum rétt. Með öllu er óskiljanlegt hvað átt er við eða hvaða tilgangi þessi meðferð á tölvupóstsamskiptum þjónar.

Staðreyndin er sú að Eldum rétt hefur eitt notendafyrirtækja sem sóttust eftir þjónustu Manna í vinnu eftir afhjúpun Kveiks þverneitað – í tvígang – að axla ábyrgð á sínum þætti í nauðungarvinnu og margháttuðum brotum gegn verkafólki. Fyrirtækið beitir fyrir sig lögfræðifimleikum og hefur lýst þeirri afstöðu að það telji óhóflegan launafrádrátt, til dæmis vegna okurhúsaleigu í iðnaðarhúsnæði, eðlilegan. Auk þess hefur framkvæmdastjóri Eldum rétt reynt að kasta ábyrgð á Vinnumálastofnun, þó með takmörkuðum árangri enda hefur forstjóri stofnunarinnar hafnað þeim rökum.

Hluti af vandamálinu eða lausninni

Afstaða Eldum rétt er að hafna öllum sáttatilboðum og samningsviðleitni og skjóta sér með öllu undan ábyrgð, þrátt fyrir að hafa kallað þá ákvörðun sína að skipta við Menn í vinnu „hræðilega“ og „slæma“. Þessu yfirlýsingum virðist engin alvara fylgja og umfram allt má hin slæma ákvörðun ekki leiða til þess að Eldum rétt beri neinn kostnað af því að bæta starfsmönnum þá vanvirðingu, nauðung og niðurlægingu sem þeir voru beittir.

Þegar öllu er á botninn hvolft nýtti Eldum rétt sér vitandi vits þjónustu þekkts brotaaðila á vinnumarkaði – væntanlega í þeim tilgangi einum að spara sér launakostnað og auka enn á hagnað fyrirtækisins sem hefur á síðustu árum hlaupið á hundruðum milljóna króna. Efling mun láta reyna á keðjuábyrgð fyrir dómi, en hver svo sem niðurstaðan verður er ljóst að Eldum rétt hefur kosið að vera hluti af vandamálinu, ekki af lausninni, þegar kemur að brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Allt launafólk á Íslandi mun að endingu tapa á því.