Áhrif nýrra kjarasamninga: Mest hækkun hjá lágtekjufólki

18. 10, 2019

Hagstofa Íslands hefur birt tölur um launabreytingar á almennum markaði frá síðasta ári fyrir kjarasamninga (desember 2018) og til maí 2019, þ.e. eftir að fyrsta launahækkun svokallaðra lífskjarasamninga er gengin yfir (sjá línurit neðst).Hækkunin er mest hjá launalægstu hópunum (5,2% til 5,5%) og fer svo minnkandi þegar litið er til launahærri hópa. Minnst er hækkunin hjá sérfræðingum og stjórnendum (1,5% til 2%).Launahækkanir samkvæmt nýjum samningum eru föst krónutala og hærri fyrir þá sem taka laun skv. töxtum. Þetta þýðir að hlutfallsleg hækkun og kaupmáttaraukning almennt er mest hjá þeim tekjulægstu.Margt annað í samningunum skilar sér best til lægstu launahópanna, til dæmis skattalækkanir sem koma í janúar nk. og svo aftur í janúar 2021. Það sama á við um hækkun barnabóta og aukinn húsnæðisstuðning, til dæmis í formi stofnframlaga og væntanlegra nýrra lánamöguleika, sem enn á þó eftir að útfæra.„Í sögulegu samhengi hefur reynst erfitt að fá meiri hækkanir í lægstu launahópunum. Reynslan af nýju samningunum til þessa bendir til að það muni takast betur nú. Við í Eflingu hljótum að gleðjast yfir því“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, en nefnir jafnframt að enn sé ósamið við opinbera starfsmenn og áhrif nýrra samninga því ekki komin fram yfir allan vinnumarkaðinn.„Það er skammarlegt að Reykjavíkurborg skuli ekki leggja meiri áherslu á að klára samningaviðræðurnar við Eflingu og sjá þar með sóma sinn í því að  tryggja lægst launuðu verkakonunum innan sveitarfélagsins mannsæmandi laun. Nálgun okkar í kjarasamningsviðræðum hefur skilað árangri en markmiðum okkar um jöfnuð er ekki náð. Þetta er aðeins upphafið, vopnahléssamningur, og við munum halda áfram að berjast fyrir jöfnuði og bættum kjörum.“