Viðræðum við Reykjavíkurborg slitið

20. 12, 2019

Efling – stéttarfélag hefur slitið samningaviðræðum við Reykjavíkurborg. Bréf þess efnis var sent ríkissáttasemjara og Reykjavíkurborg eftir hádegi í dag.Samninganefnd Eflingar, sem er skipuð fulltrúum starfsfólks borgarinnar, tók þessa ákvörðun eftir fund með samninganefnd Reykjavíkurborgar í gær, fimmtudaginn 19. desember. Á þeim fundi þótti samninganefnd Eflingar verða endanlega ljóst hversu lítinn skilning borgin hefði sýnt þeim málefnum sem nefndin hefur reynt að fá rædd.„Við höfum frá fyrsta degi tekið þátt í þessum viðræðum af fullri alvöru, í þeim tilgangi að fá loksins langþráða leiðréttingu á launum og vinnuaðstæðum fólksins okkar hjá borginni,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þegar tilkynning um slit viðræðna var send út í dag. „Við höfum setið við samningaborðið frá því í vor og það er þyngra en tárum taki að segja frá því að því sem næst enginn árangur hefur náðst þar. Fundurinn í gær tók af öll tvímæli um það.“„Við höfum í nærri níu mánuði reynt að brjótast gegnum raunveruleikarofið sem ríkir meðal hæst settu ráðamanna borgarinnar,“ segir Sólveig. „Við höfum reynt að benda á hversu kaldranaleg stefna þeirra er gagnvart lægst launaða starfsfólkinu. Það hefur einfaldlega ekki tekist. Það er ótrúlegt að horfa uppá það hversu mikið virðingarleysi formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar og borgarstjórinn sjálfur eru fær um að sýna eigin starfsfólki.“Síðustu vikur hefur Efling birt viðtöl við félagsmenn sem starfa hjá borginni. Þau lýsa óhóflegu álagi, sultarlaunum og ófaglegri framkomu stjórnenda hjá borginni. Meðal annars sé starfsfólki í mötuneytum, sem tilheyra lægst launaða hópnum á íslenskum vinnumarkaði, bannað að borða matinn sem þau elda og þeim gert að henda afgangsmat í ruslið.„Þau leyfa sér þessa fáránlegu framkomu gagnvart eigin starfsfólki, þennan yfirgengilega hroka, meðan borgarstjórnin fær sér andabringur á kostnað borgarbúa og setur sjálf reglur um eigin laun,“ bætir Sólveig Anna við. „Það er svo langt milli þessa fólks og raunveruleikans að þau virðast einfaldlega ekki skilja hann.“Viðræðuslitin þýða að ríkissáttasemjari boðar fundi á tveggja vikna fresti, lögum samkvæmt, og færa stéttarfélagið nær boðun verkfalla.