Ekki verður af samúðarverkfalli Eflingarfélaga hjá einkareknum skólum

Félagsdómur hefur dæmt samúðarverkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá einkareknum skólum ólögmætt. Verkfallið átti að hefjast á hádegi mánudaginn 9. mars. Efling hlítir niðurstöðu dómsins og verður því ekki af verkfalli.

Rök dómsins voru á þann veg að þar sem kjör félagsmannanna sem í hlut eiga hafa tekið mið af kjarasamningi Eflingar við Reykjavíkurborg þá hljóti verkfallið að teljast vera gert af hálfu félagsmannanna í þeim tilgangi að bæta eigin kjör, fremur en að sýna eingöngu samstöðu með borgarstarfsmönnum í verkfalli. Dómurinn í klofnaði í afstöðu sinni og vildi einn dómari sýkna Eflingu og dæma verkfallið lögmætt á þeim forsendum sem félagið byggði á. Samtök atvinnulífsins flutti málið fyrir hönd Samtaka sjálfstæðra skóla (SSSK) og héldu ofangreindu sjónarmiði á lofti í sínum málflutningi.

Efling mótmælti rökum Samtaka atvinnulífsins og benti á að jafnvel þótt kjör félagsmanna hjá SSSK hafi tekið mið af samningi við Reykjavíkurborg þá hafi ætlun og yfirlýst markmið verkfallsins sannarlega verið að sýna samstöðu með starfsfólki Reykjavíkurborgar.

„Þessi dómur þrengir í raun rétt verkafólks til samúðarverkfalla með því að setja mjög ströng skilyrði um að kjör hópa megi ekki tengjast,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „En auðvitað er líka ágætt að dómur hafi fallið og er þá hægt að taka tillit til þess í hugsanlegum verkfallsaðgerðum þegar fram líða stundir.“