Launahækkanir núgildandi kjarasamninga verða aldrei snertar

24. 09, 2020

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag hafnar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar alfarið röksemdum atvinnurekenda um að engar forsendur séu fyrir launahækkunum. Þvert á móti sé skynsamlegt og í núverandi ástandi enn mikilvægara en áður að auka kaupmátt almennings og veita hagkerfinu þannig dýrmæta örvun.ÓlíkindalætiAð vinna gegn glórulausri misskiptingu auðs er eitt stærsta verkefni okkar tíma. Nýjar tölur Hagstofunnar um að 10% ríkustu Íslendinganna eigi 56% af hreinum eignum landsmanna eru blaut tuska í andlit verkafólks en staðfesta augljóst vandamál. Það er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að vera í fararbroddi í baráttunni gegn misskiptingu og nota kjarasamningagerð til þess.Ný launatölfræði staðfestir að krónutöluhækkanir í samningum Eflingar síðan 2019 hafa bætt kjör hinna lægst launuðu hlutfallslega meira en hinna tekjuhærri. Núgildandi kjarasamningur á almennum vinnumarkaði, sem var undirritaður að aflokinni verkfallsbaráttu hundruða Eflingarfélaga, hefur einnig stuðlað að auknum jöfnuði. Leiðréttingin sem Eflingarfélagar hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögum knúðu þar að auki fram með hetjulegri verkfallsbaráttu vorið 2020 styður sama markmið.Í ljósi Kórónaveirukreppunnar er enn mikilvægara en áður að auka hlut láglaunafólks í heildartekjum. Allir sem til þekkja, jafnvel íhaldssamir hagfræðingar, eru sammála um að leiðin út úr núverandi kreppu er í gegnum kaupmátt almennings sem viðheldur innlendri eftirspurn. Láglaunafólk er mun líklegra en aðrir til að verja  viðbótarkrónum sínum í lífsnauðsynlegar vörur og þjónustu í nærhagkerfinu, fremur en utanlandsferðir, sparnað eða fitun aflandsreikninga í fjarlægum löndum. Þess vegna er það góð og skynsöm hagfræði að veita láglaunafólki viðbótarkrónur til að spila úr.Einnig er góð og skynsöm hagfræði að íslenska ríkið, sem býr við fádæma góða skuldastöðu, beiti sér til að viðhalda eftirspurn í gegnum atvinnustefnu í þágu launafólks. Mikið af opinberu fé hefur þegar runnið til stórfyrirtækja í ferðaþjónustu en ganga þarf lengra til að tryggja að opinbert fé haldist í hagkerfinu og skili sér til almennings. Ríkið hefur enn mikið svigrúm til að hækka atvinnuleysisbætur og skapa störf á boðlegum kjörum fyrir atvinnulaust fólk.Íslenskir atvinnurekendur lögðu mikla áherslu á langan kjarasamning í samningalotunni vorið 2019 og höfnuðu alfarið tillögu um styttri samningstíma. Þeim varð að ósk sinni. Langur samningstími kemur til góða í núverandi ástandi. Samningurinn veitir heimilum verka- og láglaunafólks von í erfiðum aðstæðum og hagkerfinu öllu dýrmæta örvun. Launahækkanir núgildandi kjarasamninga verða aldrei snertar. Gaspur leiðarahöfunda og leiðtoga atvinnurekenda um annað eru ólíkindalæti.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélagsBirt í Morgunblaðinu 24.09.2020