Fara fram á álagsgreiðslu vegna COVID-19

16. 11, 2020

Félag grunnskólakennara, Efling og Sameyki segja álag á starfsfólk leik-, grunn- og tónlistarskóla og frístundaheimila hafa verið mikið á tímum COVID-19. Verulegar breytingar hafi orðið á starfsskilyrðum og inntaki starfa undanfarna mánuði.Félag grunnskólakennara, Efling og Sameyki, fyrir hönd félagsmanna sinna sem starfa í leikskólum, grunnskólum, tónlistarskólum og frístundaheimilum, fara fram á við mennta- og menningarmálaráðherra að tryggt verði fjármagn þannig að greiða megi álagsgreiðslur til starfsfólks. Þetta kemur fram í bréfi sem formenn félaganna þriggja; Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, fyrir Félag grunnskólakennara, Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrir Elfingu, og Árni Stefán Jónsson, fyrir Sameyki, sendu Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra síðdegis í dag.„Það er öllum ljóst að afrek hefur verið unnið í leik-, grunn- og tónlistarskólum og frístundaheimilum landsins undanfarna mánuði. Þrátt fyrir að heimsfaraldur Covid-19 hafi gríðarleg áhrif á samfélagið hefur að mestu tekist að halda uppi óslitnu skólastarfi við aðstæður sem eiga sér engar hliðstæður,“ segir meðal annars í bréfinu til ráðherra.Þá segir að verulegar breytingar á starfsaðstæðum og starfsskilyrðum hafi átt sér stað. „Þetta hefur haft miklar afleiðingar á inntak starfa og aukið álag á starfsfólk sem alla daga vinnur að því að mennta og gæta barna og ungmenna, og tryggja réttindi þeirra til náms og þroska,“ segir orðrétt í bréfinu.Félögin þrjú fara sem fyrr segir fram á að ráðherra menntamála tryggi fjármagn og að starfsfólk skólanna fái álagsgreiðslur. Lagt er til að um eingreiðslu verði að ræða og útfærsla verði á hendi forstöðumanna hverrar stofnunar. „Heildarfjárhæð sem ráðstafað væri í álagsgreiðslur yrði um 1,0 milljarður króna,“ segir í niðurlagi bréfsins.Bréf Félags grunnskólakennara, Eflingar og Sameykis til mennta- og menningarmálaráðherra