Uppvakningur

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR skrifuðu grein í Fréttablaðið undir yfirskriftinni Uppvakningar, þar sem þau færa skýr rök fyrir því hversvegna þau hafna alfarið tilraunum SA um að endurvekja draug Salek-samkomulagsins. Hinn margumtalaði friður á vinnumarkaði fæst að sjálfsögðu ekki með yfirgangi auðstéttarinnar og skerðingu þeirra á völdum og áhrifum vinnandi fólks, heldur með sanngjarnri skiptingu auðsins sem vinnandi fólk skapar.

Uppvakningur

Samtök atvinnulífsins hafa sett fram tillögur sínar um ýmsar breytingar á íslensku samfélagi undir heitinu „Höldum áfram“. Þar er meðal annars reynt að vekja upp draug Salek-samkomulagsins. Salek-samkomulaginu hefur verið hafnað að athuguðu máli og er það ekki grunnur til framtíðarskipunar íslenskra vinnumarkaðsmála. Hvers vegna er það?Ein ástæða þess að Salek-samkomulagið gengur ekki upp á Íslandi er að það felur í sér innleiðingu á vinnumarkaðsmódeli að fyrirmynd Norðurlandanna án þess að taka tillit til þeirra sterku félagslegu réttinda og velferðarúrræða sem tryggð hafa verið þar.Væri SA alvara með því að vilja fara leið Norðurlandanna í vinnumarkaðsmálum ættu þau fyrst að beita sér fyrir því að á Íslandi verði tekið upp öflugt barnabótakerfi, húsnæðisstuðningur (m.a. með stóraukinni þátttöku hins opinbera í uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis), tekjuskattur og fjármangstekjuskattur líkt og tíðkast í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Fróðlegt verður að sjá hvort slíkar tillögur berast úr ranni SA.Önnur ástæða þess að Salek hefur verið hafnað er að samkomulagið gengur út á að afnema í reynd sjálfstæðan samningsrétt almennings á Íslandi um kjör. Þess í stað yrði launasetning sett í hendur sérfræðinganefnda og valdheimildir Ríkissáttasemjara til að skikka launafólk undir úrskurði þeirra stórauknar.SA kalla þannig eftir eins konar afturhvarfi til haftatímans, þegar nefndir á vegum hins opinbera stýrðu verðlagi með tilskipunum. Sú spurning vaknar hvort SA vilji einnig að slík miðstýring verði tekin upp til að stjórna annarri verðmyndun, til dæmis á fasteignamarkaði og á varningi í stórmörkuðum. Að minnsta kosti blasir við að launafólk mun ekki undirgangast slíka stýringu nema sams konar bönd verði sett á aðra geira hagkerfisins.Þriðja ástæðan til að gjalda varhug við hugmyndum SA um aukna miðstýringu í kjarasamningagerð er að SA hafa sjálf ekki virt þá miðlægu kjarasamninga sem hafa verið gerðir á Íslandi nýlega. Dæmi um það er Lífskjarasamningurinn sem undirritaður var vorið 2019 þar sem kveðið er á um krónutöluhækkanir og sérstakar hækkanir lægstu launa. Aðildarfélög ASÍ og flest önnur stéttarfélög hafa undirgengist að fylgja hugmyndafræði Lífskjarasamningsins um þessi atriði.Hins vegar hefur framfylgd á grunnhugmyndafræði Lífskjarasamningsins verið mjög ábótavant hjá Samtökum atvinnulífsins. Þar má nefna andstöðu SA við að krónutöluhækkanir samningsins skili sér í heilu lagi til starfstétta á borð við flugfreyjur og starfsfólk í álverum. Með þessari afstöðu sinni hafa SA skert mjög eigin trúverðugleika sem rödd samkvæmni og aukinnar miðstýringar í kjarasamningagerð.Fjórða ástæðan til að hafna Salek er að samkomulagið veitir enga tryggingu fyrir sanngirni. Fullur skilningur er á því innan verkalýðshreyfingarinnar að nafnlaunahækkanir einar og sér eru berskjaldaðar fyrir áhrifum verðlagsþróunar, og því getur verið skynsamlegt að stilla nafnlaunahækkunum í hóf sé aukning kaupmáttar og ráðstöfunartekna betur tryggð með öðrum leiðum. Slíkri nálgun þarf þó augljóslega að fylgja raunveruleg trygging gegn því að hálauna- og stóreignastéttir sem eru óbundnar af kjarasamningum noti ekki tækifærið til að skammta sér óeðlilegan viðbótarskerf af verðmætasköpun samfélagins. Engin slík trygging fylgir Salek-samkomulaginu.Sú áhersla á hófsamari nafnlaunahækkanir og aukinn aga í kjarasamningsgerð sem innleidd var með Þjóðarsáttinni um 1990 leiddi til stóraukins ójöfnuður meðal Íslendinga bæði mælt í tekjum og eignum áratugina á eftir. Auk þess stórhækkaði skattbyrði láglaunafólks í samanburði við tekjuhærri hópa. Slík ójafnðaraukning er ekki aðeins ósanngjörn heldur skapar hættu á efnahagslegum stórslysum á borð við fjármálahrunið 2008, en það var bein afleiðing af taumlausri uppsöfnun auðs á fárra hendur.Tekið skal undir yfirlýsingu SA um vilja til að „deila því sem er til skiptanna með sanngjörnum hætti“. Hins vegar er ekki hægt að horfa fram hjá því að í framkvæmd hefur aukin miðstýring og hömlun nafnlaunahækkana í kjarasamningagerð ekki náð þessu markmiði. SA þurfa því að leggja fram betur ígrundar hugmyndir ætli þau að ná samstöðu milli aðila vinnumarkaðarins um leiðir að þessu markmiði.Á heildina litið eiga hugmyndir SA um framtíðarskipun vinnumarkaðsmála í anda Salek-samkomulagsins hvorki erindi við raunveruleikann né framtíðina.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VRBirt í Fréttablaðinu 26. nóvember 2020