Atvinnurekendur eiga ekki að skipa helming stjórnarmanna í stjórnum lífeyrissjóða

11. 12, 2020

Trúnaðarráð Eflingar fjallaði á fundi sínum 12. nóvember síðastliðinn um vald sjóðfélaga í íslenska lífeyrissjóðakerfinu.Niðurstaðan er eftirfarandi:

  • Eflingarfélagar vilja meiri og beinni áhrif sjóðfélaga á stjórnun og ákvarðanir lífeyrissjóða í samræmi við að sjóðirnir eru í þeirra eigu.
  • Eflingarfélagar vilja að lífeyrissjóðir beiti virkari eigendastefnu í þágu samfélagsábyrgðar gagnvart þeim fyrirtækjum sem sjóðirnir eiga í.
  • Eflingarfélagar krefjast afnáms þess fyrirkomulags að atvinnurekendur skipi helming stjórnarmanna í lífeyrissjóðum og hafi þar með neitunarvald um ákvarðanir stjórna.

 Ályktun Trúnaðarráðs Eflingar um vald sjóðfélaga í íslenska lífeyrissjóðakerfinuSamþykkt 10. desember 2020Trúnaðarráð Eflingar – stéttarfélags, sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins, ályktar eftirfarandi.Lífeyrisréttindin sem bundin eru í íslenskum lífeyrissjóðum eru ávinningur af kjarabaráttu launafólks og beinn ávöxtur af vinnu þeirra. Lífeyrissjóðir og lífeyrisréttindi eru eign launafólksins og engra annarra.Efling setur fram þá kröfu að lífeyrissjóðir starfi í samræmi við vilja og hagsmuni sjóðfélaga. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að afnema það fyrirkomulag að atvinnurekendur skipi helming stjórnarmanna í stjórnum lífeyrissjóða. Það er ekki lýðræðislegt að sérhagsmunasamtök atvinnurekenda hafi þar neitunarvald. Slíkt gerir núgildandi ramma utan um aðkomu almennra sjóðfélaga að stjórnun lífeyrissjóða í reynd að engu og sjóðfélagalýðræði merkingarlaust. Efling gerir þá kröfu að viðeigandi breytingar á starfsumhverfi lífeyrissjóðanna verði gerðar án tafar.Efling hafnar með öllu þeim áróðri að kalla frjálsa skoðanatjáningu kjörinna leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar um lífeyrissjóði „skuggastjórnun“. Eina svarið við slíkum þöggunartilburðum er að krefjast aukinnar aðkomu sjóðfélaga og vinnandi fólks að stjórnun lífeyrissjóða.Efling gerir þá kröfu að lífeyrissjóðir axli meiri samfélagsábyrgð en nú er. Ótækt er að lífeyrissjóðir fjárfesti í fyrirtækjum sem ganga gegn umhverfissjónarmiðum, fótum troða hag almennings og beina hagsmuni sjóðfélaga. Þess í stað ber sjóðunum að beita sér af fullum þunga með fjárfestingastefnu sinni fyrir betra og sanngjarnara samfélagi. Lífeyrissjóðum ber að setja sér ítarlega stefnu um samfélagsábyrgð, sem sé ekki orðagjálfur heldur raunveruleg krafa til fyrirtækja sem fjárfest er í. Ber þar að horfa til virðingar gagnvart ákvæðum kjarasamninga og vinnumarkaðslöggjafar, viðmiða um launabil innan fyrirtækja, fulla virðingu gagnvart sjálfbærni og umhverfisvernd og fleiru.Efling hvetur til frekari umræðu um sjóðfélagavald og samfélagsábyrgð lífeyrissjóða á breiðum vettvangi.