Samtökum atvinnulífsins og Icelandair stefnt fyrir Félagsdóm í dag

20. 10, 2021

Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, var í dag stefnt fyrir Félagsdóm f.h. samtakanna vegna uppsagnar Ólafar Helgu Adolfsdóttur, trúnaðarmanns á Reykjavíkurflugvelli. Icelandair sagði Ólöfu upp án aðvörunar á meðan hún stóð í viðræðum við fyrirtækið um réttindamál vinnufélaga sinna í sumar. Samtök atvinnulífsins hafa varið þá ákvörðun æ síðan og reka málið fyrir hönd fyrirtækisins.

Í stefnunni er rökstutt ítarlega með vísun í gögn, sem m.a. koma frá starfsfólki Icelandair og Samtaka atvinnulífsins, að uppsögn Ólafar hafi  verið „í beinum tengslum við störf hennar sem trúnaðarmaður og öryggistrúnaðarmaður“. Uppsagnir trúnaðarmanna eru almennt óheimilar samkvæmt lögum 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, og þarf ríka ástæðu til að víkja frá þeirri uppsagnarvernd. Samtök atvinnulífsins og Icelandair hafa ekki gefið upp neina slíka haldbæra ástæðu.

Sú aðför sem Icelandair, með stuðningi Samtaka atvinnulífsins, hefur nú gert að réttindum starfsfólks síns, fyrst með uppsögn flugfreyja og flugþjóna á meðan á verkfalli þeirra stóð á síðasta ári, og nú síðast með uppsögn Ólafar, markar tímamót í umgengni Samtaka atvinnulífsins og atvinnurekenda við lög og kjarasamninga.

Grundvöllur samskipta aðila vinnumarkaðarins hefur hingað til verið sá að fólki sé ekki refsað fyrir að verja réttindi sín og vinnufélaga sinna innan viðurkenndra boðleiða og með löglegum aðferðum. Samtök atvinnulífsins ráðast nú að þessum grundvelli.

Bæði Samtök atvinnulífsins og Icelandair undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu þann 17. september 2020, þar sem Icelandair sagði „nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns“. Í máli Ólafar hafa Icelandair og SA gengið í einu og öllu gegn þessari yfirlýsingu.

Ólöf hefur skorað á Icelandair að draga hina ólöglega uppsögn baka, og heimila henni að snúa aftur til starfa með sínum vinnufélögum. Þeirri áskorun hefur verið hafnað. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur hafnað samtali við Eflingu um málið og sagt það ekki vera á sínu borði. Halldóri Benjamín býðst að svara í Félagsdómi.

Þingfesting var í dag klukkan 14:30 í húsnæði Félagsdóms í Kópavogi. Var Ólöf Helga viðstödd hana ásamt Karli Ó. Karlssyni lögmanni Eflingar og Viðari Þorsteinssyni framkvæmdastjóra félagsmála hjá Eflingu.