Auglýst eftir tilnefningum í samninganefnd 

20. 09, 2022

Efling – stéttarfélag kallar eftir tilnefningum í samninganefnd vegna komandi kjarasamningalotu. Kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum við Samtök atvinnulífsins losna 1. nóvember og við opinbera viðsemjendur þann 31. mars á næsta ári. 

Félagsfólki úr öllum geirum býðst að tilnefna sig til setu í  nefndinni, sem mun í fyrstu leiða kjaraviðræður við SA. Nefndin verður skipuð 80 Eflingarfélögum, þar á meðal stjórn félagsins. Trúnaðarráð kýs samninganefndina að mótteknum tilnefningum og tillögu um skipun hennar. 

Hlutverk samninganefndar skv. lögum Eflingar (18. gr.) er að koma fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Samninganefnd hefur meðal annars umboð til þess að setja fram kröfugerð félagsins, gera áætlun um skipulag viðræðna, gera tillögur að samningum, taka þátt í samningaviðræðum og slíta þeim, óska milligöngu sáttasemjara um samningaumleitanir og undirrita kjarasamninga. 

Seta í samninganefnd er vandasamt og krefjandi ábyrgðarhlutverk. Mæta þarf á fundi á dagvinnutíma, en einnig geta fundir verið utan þess tíma. Mælt er með að þeir sem tilnefna sig hafi setið námskeið á vegum félagsins, tekið þátt í störfum trúnaðarráðs, gegnt starfi trúnaðarmanns eða aflað sér annarrar reynslu eða þekkingar á kjaramálum og félagslegu starfi í verkalýðshreyfingunni. 

Opið verður fyrir tilnefningar fram að fundi trúnaðarráðs þann 20. október þar sem gengið verður frá skipun nefndarinnar.