Ljósmyndasamkeppni Eflingar: sjáðu sigurmyndina hér

Efling efndi til ljósmyndasamkeppni í sumar á meðal félagsfólks. Innsendar myndir áttu að endurspegla frí á Íslandi. Margir félagar tóku þátt í keppninni og fór dómnefnd yfir fjölmargar indælar sumar-myndir.

Vinningshafinn að þessu sinni er Nicholai Xuereb fyrir ljósmynd af hnúfubak að leik í sólsetri við Faxaflóa. Fyrir myndina fær Nicholai verðlaun að upphæð 40.000 krónur.

Í umsögn dómnefndar, en hana skipa Sólveig Anna Jónsdóttir og Magdalena Kwiatkowska, segir: Vinningsmyndin af hnúfubak í sólsetri er tekin við Faxaflóa á suð-vestur Íslandi. Hnúfubakurinn lyftir sér upp úr hafinu, umvafinn sjávarmistri sem sólin slær rauðgullnum bjarma. Myndin vekur upp sterka ævintýratilfinningu; við fyllumst ánægju yfir því að sjá risavaxið dýrið frjálst í náttúrunni og finnum löngun til að sigla af stað í leit að nýjum upplifunum. Við setjum okkur í spor ljósmyndarans og samgleðjumst honum með að hafa náð að festa á mynd þessa mögnuðu stund.