Félagsfólk klárt í baráttu vetrarins

28. 10, 2022

Fjölmenn samninganefnd Eflingar, skipuð félagsfólki úr mörgum geirum vinnumarkaðarins, vinnur nú hörðum höndum að smíði kröfugerðar til Samtaka atvinnulífsins. Nefndin hefur hist þrisvar sinnum í þessari viku á vel sóttum fundum. Stefnt er á að afhenda SA kröfugerð á næstkomandi mánudag, og í kjölfarið verða gerðar kröfugerðir á ríkið og vegna lífeyrissjóðakerfins.

Kjarni um 40 virkra félagsmanna og trúnaðarmanna ber uppi starf samninganefndar. Á fundum vikunnar hefur verið rætt um væntingar til komandi kjarasamninga, reynslu Eflingar af kjaraviðræðum síðustu ára, verkefni og hlutverk samninganefnda og farið yfir ákvæði laga sem snúa að kjarasamningagerð.

Unnið hefur verið í hópum og skipulega leitast eftir að kalla fram skoðanir og raddir nefndarmanna. Líkt á öllum félagsfundum Eflingar voru fundirnir textatúlkaðir milli ensku og íslensku á skjá, og glærukynningar þýddar. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, sem jafnframt er formaður samninganefndar, hefur stýrt fundum.

Yfir 4 þúsund félagsmenn eiga þátt í kröfugerðarvinnu

Kjara- og viðhorfskönnun Eflingar er ein af lykilforsendum kröfugerðarvinnu. Þrisvar sinnum fleiri félagsmenn en nokkru sinni áður tóku þátt í könnuninni að þessu sinni, eða yfir 4500 manns. Þátttökuhlutfall var mest hjá erlendum félagsmönnum, en könnunin var þýdd á 10 tungumál.

Á fundi samninganefndar í gær fimmtudag greindi Sólveig Anna frá niðurstöðum í þessari viðamiklu kjarakönnun, en þar koma fram mikilvægar vísbendingar um hvað brennur á félagsfólki. Sagt verður nánar frá helstu niðurstöðum könnunarinnar á næstu dögum.

Lært af reynslu verkafólks um víða veröld

Annar liður í undirbúningi félagsins fyrir kjaraviðræður vetrarins er þátttaka um 30 manna hóps virkra félagsmanna í námskeiðinu Power and Participation in Negotiations. Um er að ræða fjarnámskeiðá vegum Rosa Luxemburg Stiftung sem leitt er af Jane McAlevey. McAlevey er einn virtasti fyrirlesari og höfundur heims á sviði skipulagðrar verkalýðsbaráttu. Þátttakendur í námskeiðinu koma alls staðar að úr heiminum.

Hist hefur verið á laugardögum í október í Félagsheimili Eflingar og verður hist í eitt skipti til viðbótar. Í hverri kennslustund, sem hefur staðið í um 3 klukkutíma, hefur verið hlýtt á erindi og hópverkefni unnin. Námskeiðið er byggt upp í kringum lærdóma af vel heppnuðum samningaviðræðum stéttarfélaga í Bandaríkjunum og Þýskalandi, þar sem stórir hópar verkafólks hafa tekið beinan þátt og viðræðurnar verið opnar félagsfólki. Skrifstofa Eflingar hefur séð um að þýða efni og láta túlka umræður fyrir þátttakendur.

Samstaða og kraftur

Á fundum trúnaðarráðs og á fjölsóttum trúnaðarmannanámskeiðum undanfarið hefur verið mikið rætt um reynslu félagsins af kjaraviðræðum síðustu ára.

„Ég skynja eindreginn vilja meðal félagsfólks til að samningaviðræður verði skipulagðar með þátttöku þeirra, og að viðræður verði opnar og gangsæjar,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

„Fjöldi, þátttaka og sýnileiki – þetta eru einkunnarorð sem félagsfólk okkar hefur fylkt sér að baki. Í vetur munum við fara í kjarabaráttu þar sem félagslegur máttur og réttlæti fyrir verkafólk verður aðalatriðið,“ sagði hún enn fremur.

Svipmyndir af fundum félagsfólks síðustu vikum: