Ályktun samninganefndar um stöðu kjaraviðræðna

16. 12, 2022

Samninganefnd Eflingar – stéttarfélags gagnrýnir harðlega hvernig yfirvarp skammtímasamnings hefur verið notað til að slá vopn úr höndum verkalýðshreyfingarinnar og þvinga fram kjarasamning sem býður launafólki kaupmáttarrýrnun á tímum ofsafengins góðæris.

Staðan er sú að meirihluti Eflingarfélaga býr við miklar fjárhagsáhyggjur og heimili láglaunafólks eru rekin með halla. Næstum 10% verðbólga og glæpsamlegar hækkanir leigufélaga hafa aukið þennan vanda fram úr öllu hófi. Á sama tíma er hagvöxtur og hagnaður fyrirtækja í slíkum hæðum að annað eins hefur ekki sést síðan á tímum fjármálabólunnar 2005-2008.

Hundakúnstum hefur verið beitt í umræðunni til að láta kjarsamninganna líta betur út en efni standa til. Þessir samningar eru kallaðir framhald á Lífskjarasamningum, en eru þó algjörlega andstæðir þeim enda byggðir á prósentuhækkunum auk þess að tryggja enga kaupmáttaraukningu. Hagvaxtarauki, sem félagsfólk hefði fengið hvað sem öðru líður, er markaðssettur sem árangur þessarar kjarasamningagerðar. Félagsfólk er þannig látið sæta þeirri niðurlægingu að ganga tvisvar til atkvæða um sömu launahækkunina.

Lærdómurinn af mistökum síðustu vikna er að verkafólk nær ekki árangri í kjaraviðræðum með því að formenn stéttarfélaga láti sig hverfa inn í læst herbergi með fulltrúum fyrirtækjaeigenda og hendi lyklinum. Árangur næst með því að félagsfólk taki beinan þátt í viðræðum, sé upplýst á öllum stigum um gang þeirra og standi sameinað þétt að baki sinni forystu.

Samninganefnd Eflingarfélaga hefur verið markvisst útilokuð frá þessum viðræðum. Beiðnum um samningafundi hefur verið svarað seint og illa. Forsætisráðherra hunsaði bæði samninganefnd og formann Eflingar þegar boðið var til fundahalda og viðræðna um aðkomu stjórnvalda. Það er ekki tilviljun: fulltrúar atvinnurekenda og valdhafa óttast ekkert meira en stóra, sterka og sameinaða hópa verkafólks.

Láti íslenskt verkafólk bjóða sér þann kjarasamning sem nú eru greidd atkvæði um er ljóst að mikill ósigur hefur átt sér stað. Sá ósigur verður hörmulegt vegarnesti inn í endurnýjun samningsins sem rennur út að rúmu ári liðnu.

Ef skilaboð okkar til atvinnurekenda og valdhafa nú eru þau að sökum vanmáttar getum við ekki annað en sætt okkur við að vera hlunnfarinn, hvers vegna í ósköpunum ættum við að ná betri árangri að ári liðnu?

Samþykkt á fundi samninganefndar 13. desember 2022