Langstærstum hluta krafna fyrrum starfsmanna hafnað og uppsagnir dæmdar lögmætar

Héraðsdómur Reykjavíkur birti í dag dóma í málum sem höfðuð voru af hálfu þriggja fyrrum starfsmanna skrifstofu Eflingar. Upphaf málanna má rekja til ársins 2018.

Í dómunum þremur var staðfest að uppsagnir þeirra starfsmanna sem gerðu kröfur á hendur Eflingu voru lögmætar, enda voru uppsagnirnar í samræmi við viðeigandi kjara- og ráðningarsamninga. Þetta þýðir að tugmilljón króna kröfum þeirra á hendur Eflingu var hafnað og staðfesta dómarnir þannig jafnframt að Eflingu bar á engan hátt að verða við slíkum kröfum.

Í tveimur málanna var því haldið fram að stjórnendur Eflingar hefðu gerst sekir um einelti í garð starfsmanna, en í dómnum var niðurstaðan sú að sýkna af kröfum sem á því byggðu.

Í málunum voru einnig gerðar kröfur um greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 5.000.000 í hverju máli fyrir sig. Fallist var á að Efling skyldi greiða lítið brot af þeirri fjárhæð í hverju máli. Rökstuðningur í dómunum fyrir því er byggður á mismunandi og matskenndum sjónarmiðum í hverju máli fyrir sig og atvikum í hverju máli. Í því sambandi ber að taka fram að niðurstaða um miskabætur byggist ekki á því að Efling hafi brotið gegn réttindum starfsmanna á neinn hátt, heldur er staðfest að gætt var að ákvæðum kjara- og ráðningarsamninga við uppsagnirnar.

Efling telur að þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar í málunum varðandi miskabætur séu a.m.k. ekki rétt að öllu leyti. Þannig voru t.d. dæmdar miskabætur vegna framkvæmdar uppsagnar sem sýnt var fram á að hefði verið að öllu leyti til samræmis við ráðgjöf fagaðila í mannauðsmálum, auk þess sem í öðru málanna virðist sem Efling sé látin bera ábyrgð á umfjöllun ótengds aðila í fjölmiðlum.

Efling skoðar nú með sínum lögmönnum hvort tilefni sé til að áfrýja dómunum eða hvort rétt sé að láta kyrrt liggja í ljósi þess að langstærstum hluta krafnanna hefur verið hafnað.