Atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar – Samskip, Olíudreifing og Skeljungur

31. 01, 2023

Kjörstjórn Eflingar – stéttarfélags auglýsir hér með almenna leynilega rafræna atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar hjá fyrirtækjunum Samskip, Olíudreifing og Skeljungur.

Atkvæði greiða þeir félagsmenn sem boðunin tekur til.

Um er að ræða ótímabundna vinnustöðvun sem hefst klukkan 12 á hádegi 15. febrúar 2023. Vinnustöðvunin tekur til starfa undir kjarasamningum Eflingar við SA við vörubifreiðaakstur hjá Samskip hf. / Samskip innanlands ehf. og við olíudreifingu hjá fyrirtækjunum Olíudreifing ehf. og Skeljungur ehf. svo sem nánar er lýst í samþykktri boðun samninganefndar.

Atkvæðagreiðsla hefst klukkan 12 á hádegi föstudaginn 3. febrúar 2023.

Atkvæðagreiðslu skal ljúka klukkan 18:00 þriðjudaginn 7. febrúar 2023.

Boðun var samþykkt á fundi samninganefndar Eflingar þann 30. janúar 2023. Texti hennar í heild sinni er hér.

Boðuninni fylgir svohljóðandi viðauki um undanþágunefndir: „Samninganefnd Eflingar skal setja á fót undanþágunefndir sem taki við beiðnum um undanþágur frá ofangreindum vinnustöðvunum. Í tilvikum þar sem almannaöryggi krefst undanþágu frá vinnustöðvun að mati nefndanna skulu þær veita slíka undanþágu, að fenginni undanþágubeiðni þar sem þýðing undanþágunnar fyrir almannaöryggi er rökstudd með skýrum og sannfærandi hætti. Aðilum sem starfa við löggæslu, brunavarnir, sjúkragæslu og aðra starfsemi sem varðar almannaöryggi skal gert kunnugt um starfsemi undanþágunefnda og kynnt hvernig sótt er um undanþágur.“

Tengill til að fá aðgang að rafrænni atkvæðagreiðslu er hér fyrir ofan (virkjast kl. 12 á hádegi 3.2.2023). Allir félagsmenn á kjörskrá sem eru með skráð netfang hjá félaginu fá tengilinn jafnframt sendan í tölvupósti. Til að greiða atkvæði þarf rafræn skilríki.

Félagsmenn sem eru ekki á kjörskrá en telja sig hafa atkvæðisrétt skulu senda erindi til kjörstjórnar og óska þess að vera bætt á kjörskrá. Erindi skal fylgja launaseðill eða ráðningarsamningur. Farið er með erindið og fylgigögn í trúnaði og skal það sent á netfangið felagsmal@efling.is.

Félagsmenn sem ekki geta nýtt sér rafræna atkvæðagreiðslu geta kosið utan kjörfundar með pappírsatkvæði á skrifstofu félagsins, á opnunartíma hennar, og skulu hafa löggild skilríki meðferðis, svo sem ökuskírteini, vegabréf eða nafnskírteini útgefið af Þjóðskrá Íslands.

31. janúar 2023