Efling gerir lokatilraun til sátta við SA

Samninganefnd Eflingar – stéttarfélags hefur gert Samtökum atvinnulífsins tilboð til lausnar á yfirstandandi kjaradeilu milli aðila. Tilboðið var samþykkt einróma á fundi samninganefndar Eflingar í gær, 8. janúar og sent SA og ríkissáttasemjara strax að loknum fundi.

Í tilboðinu er komið verulega til móts við viðsemjanda frá upphaflegri kröfugerð og fyrri tilboðum frá 21.12.2022 og 29.11.2022.

Hækkanir innan ramma þess sem samið hefur verið um

Tilboðinu fylgir útfærsla á nýrri launatöflu. Hækkanir töflunnar eru á bilinu 40 til rúmlega 59 þúsund, sem er innan þess ramma sem samið var um við önnur stéttarfélög í byrjun desember.

Til viðbótar komi framfærsluuppbót að upphæð 15.000 kr. sem er sama upphæð framfærsluuppbótar og Efling krafðist í tilboði sínu 12. desember, en nú er boðið að framfærsluuppbótin verði utan við grunnlaun og hækki því ekki vakta- og yfirvinnuálög.

Launatafla aðlöguð

Þá er launatöflu breytt þannig að starfsmaður þarf að hafa unnið í 18 mánuði í starfsgrein til að ná fyrsta starfsaldursþrepi, í stað 12 mánaða áður.

Hönnun launatöflunnar setur hlutfallslega mesta í vikt í annað og þriðja starfsaldursþrep, ólíkt töflu SGS samningsins sem setur langmesta vikt á efsta þrepið (5 ára starfsaldur).

Þá er nokkrum störfum endurraðað í töfluna og lögð er fram bókun um sameiginlegan skilning aðila á rétti trúnaðarmanna til að starfa í samninganefndum án launataps.

Samþykkt er að hagvaxtarauki falli niður og aðrar hækkanir á launaliðum komi í hans stað.

Málefnalegar forsendur

Forsendur tilboðsins eru þær að aðlaga launatöflu í samningi SA og SGS að samsetningu félagsmannahóps Eflingar og að koma til móts við háan framfærslukostnað verkafólks á Höfuðborgarsvæðinu, einkum vegna stjórnlauss húsnæðimarkaðar.

Þá er horft til þess að verja kaupmátt launa, tryggja hlutdeild verkafólks í miklum hagvexti og að fylgja eftir hugmyndafræði Lífskjarasamningsins um hækkun lægstu launa umfram önnur laun.

Lögvarinn samningsréttur verði virtur

Samninganefnd hafnar því með öllu að Eflingarfélagar séu bundnir af kjarasamningagerð annarra stéttarfélaga. Yfirlýsingar Samtaka atvinnulífsins um slíkt eru í algerri andstöðu við lagaramma íslensks vinnumarkaðar.

Samninganefnd Eflingar gefur sér að Ríkissáttasemjari muni beita sér eins og þurfa þykir á næstu sólarhringum til að tryggja að aðilar virði sjálfstæðan og lögboðinn samningsrétt hvors annars.

Haldi Samtök atvinnulífsins áfram að hafna því að tekið sé tillit til augljósra staðreynda um aðstæður verkafólks á Höfuðborgarsvæðinu og lítilsvirða sjálfstæðan samningsrétt þeirra mun félagið lýsa viðræður árangurslausar og hefja undirbúning verkfallsaðgerða. Er þetta tíundað í tilboðinu.

Metfjöldi félagsfólks kemur að samningagerð Eflingar

Samninganefnd Eflingar vann upphaflega kröfugerð sína út frá skilaboðum um 4500 Eflingarfélaga sem tóku þátt í kjarakönnun félagsins síðastliðið haust, margfalt fleiri en nokkurn tíma hafa komið að kjarasamningagerð Eflingar. Í samninganefnd eiga sæti tugir Eflingarfélaga úr ýmsum geirum atvinnulífsins á samningssvæði Eflingar.

Þá hefur samninganefnd án undantekningar birt opinberlega það sem hún hefur lagt fram við viðsemjanda.

Samninganefnd hefur hitt SA á sex samningafundum síðan samningar losnuðu þann 1. nóvember, og fundað sjálf 20 sinnum í vetur.

Tilboðið eins og því var skilað til SA.

Launataflan sem fylgir tilboðinu.

Af fundi samninganefndar 8.1.23
Af fundi samninganefndar 8. janúar 2023.