Olíubílstjórar skipa samninganefnd og undirbúa kröfugerð

24. 01, 2023

Eflingarfélagar sem starfa við akstur olíuflutningabíla hjá Skeljungi og Olíudreifingu hittust á vel sóttum fundi í Félagsheimili Eflingar í gærkvöldi, 24. janúar. Olíubílstjórar í Eflingu starfa undir sama sérkjarasamningi við olíufélögin.

Á fundinum var skipuð sameiginleg samninganefnd félagsmanna hjá báðum fyrirtækjum, og drög lögð að kröfugerð. Trúnaðarmenn Eflingar hjá fyrirtækjunum stóðu að fundinum í samráði við skrifstofu félagsins, og höfðu áður verið haldnir vinnustaðafundir hjá hvoru fyrirtæki fyrir sig.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar stýrði fundinum, þar sem rætt var ítarlega um stöðuna í viðræðum félagsins við SA. Á fundinum kom fram eindreginn stuðningur við baráttu félagsins fyrir ásættanlegum kjarasamningum. Samninganefnd Eflingar krafðist hækkunar á launaflokkum bæði flutninga- og rútubílstjóra í seinasta tilboði sínu til SA.

Jafnframt var mikil umræða á fundinum um nauðsyn þess að meta álag, ábyrgð og meðferð hættulegra efna til launa. Olíubílstjórar og aðrir sem aka með hættuleg efni þurfa svokölluð ADR-réttindi, en þau er ekki metin til launa í kjarasamningum sem stendur.

Til fundarins var einnig boðið fulltrúum úr samninganefnd Eflingar og bílstjórum hjá Samskip. Bílstjórar og hafnarverkamenn hjá Samskip hafa þegar myndað sína eigin samninganefnd og sett fram kröfugerð.