Til starfsmanna Íslandshótela: Leiðrétting á misvísandi upplýsingum og boð um að ganga til liðs við samninganefndina

24. 01, 2023

Eftirfarandi skilaboð sendi Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags, til starfsmanna Íslandshótela með tölvupósti síðdegis í dag.

Kæru Eflingarfélagar á Íslandshótelum,

ég hef lesið í fjölmiðlum, og starfsmenn hafa sagt mér frá því, að stjórnendur Íslandshótela séu að dreifa misvísandi upplýsingum um stöðu kjaraviðræðna og verkfallsaðgerðir. Þetta er í samræmi við það sem vinnuveitendur gera alltaf í kjaradeilum og það er mikilvægt að við hjálpum hvort öðru að verjast þessu og upplýsum hvort annað um það sem er rétt.

Hér eru nokkrar leiðréttingar á misvísandi upplýsingum:

Staðhæfing: “Starfsmenn munu missa afturvirkar greiðslur með því að fara í verkfall”. Þetta er rangt. Samninganefnd Eflinar krefst þess að fullar afturvirkar greiðslur frá 1. nóvember verði hluti af nýjum samningi, og þessi krafa stendur enn. Vinnuveitendur geta að sjálfsögðu hótað ýmsu, en þeir ákveða ekki hvernig samningur við okkar stéttarfélag mun vera.

Staðhæfing: “Efling stéttarfélag hefur gefið starfsmönnum Íslandshótela rangar upplýsingar.” Þetta er rangt. Starfsmenn Íslandshótela fjölmenntu á upplýsingafund í félagsheimili Eflingar síðasta sunnudag, þar sem öllum upplýsingum var deilt, spurt var um margt og öllum spurningum svarað. Verkfallsboðunin sem nú er verið að kjósa um er mjög skýr. Ef starfsmenn Íslandshótela hafa spurningar um eitthvað sem er óskýrt, þá geta þeir haft samband við mig beint í gegnum netfangið solveiganna@efling.is.

Staðhæfing: “Starfsmenn Íslandshótela eru að taka ákvörðun fyrir hönd 21 þúsund Eflingarfélaga.” Þetta er rangt. Starfsmenn Íslandshótela eru einungis að kjósa um verkfallsaðgerðir á sínum eigin vinnustað, sem er eðlilegt, lýðræðislegt og í samræmi við íslenska vinnumarkaðslöggjöf. Annað verkafólk mun kjósa um verkfallsaðgerðir á sínum vinnustöðum, sem verða boðaðar og kosið um innan skamms. Samningaferli Eflingar stéttarfélags er á allan hátt lýðræðislegt og leitt af félagsmönnum og það stendur opið fyrir starfsmenn Íslandshótela.

Til að fylgja eftir þessu síðasta atriði, þá vil ég bjóða starfsmönnum Íslandshótela að ganga til liðs við samninganefnd Eflingar. Meiri upplýsingar um samninganefndina eru hér. Allt sem þú þarft að gera er að tilnefna sjálfan þig með því að fylla út þetta eyðublað: https://www.efling.is/tilnefning-i-samninganefnd/#

Ef þú tilnefnir sjálfan þig og ert skipaður í samninganefndina, þá muntu fá boð á fundi nefndarinnar.

Fundir samninganefndarinnar eru venjulega haldnir kl. 18 í félagsheimili Eflingar. Alltaf er boðið upp á ensk-íslenska textatúlkun á skjá og léttar veitingar í góðum félagsskap annarra Eflingarfélaga.

Ég hvet ykkur af öllu hjarta til að taka þessu boði og ganga til liðs við aðra Eflingarfélaga í því að byggja upp raunverulegt afl fyrir verkafólk!

Ég endurtek, ekki hika við að skrifa mér beint ef þið hafið einhverjar spurningar eða vangaveltur um kjaraviðræðurnar, verkfallsaðgerðir eða verkfallsatkvæðagreiðsluna.

Með baráttukveðju,
Sólveig Anna Jónsdóttir Formaður Eflingar – stéttarfélags