Viðræðum við SA slitið

10. 01, 2023

Samninganefnd Eflingar hefur slitið kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samninganefnd mun hefja undirbúning verkfallsaðgerða.

Samninganefnd Eflingar hefur staðið í viðræðum við SA síðan í október, þegar kröfugerð félagsins var lögð fram. Nefndin hefur fundað meira en 20 sinnum, þar af sex sinnum með SA. Viðræðum var vísað til ríkissáttasemjara í desember. Viðræður hafa engan árangur boðið þótt samninganefnd hafi gert SA þrjú tilboð eftir að kröfugerð var lögð fram, nú síðast í gær.

Yfirstandandi kjaraviðræður snúa eingöngu að almenna vinnumarkaðinum, en ekki samningsaðilum sem heyra undir hið opinbera og samninga þess (sveitarfélög, hjúkrunarheimili og ríkið).

Næsta verkefni samninganefndar er að vinna verkfallsboðun. Þegar samninganefnd hefur samþykkt verkfallsboðun þá hún lögð í atkvæði hjá því félagsfólki sem heyrir undir verkfallsboðunina. Allir þeir sem hugsanlega falla undir verkfallsboðun og eiga þar með að kjósa um hana munu fá nánari upplýsingar frá félaginu.

Eftir að atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun hefur verið auglýst getur verkfall hafist í fyrsta lagi tveimur vikum síðar. 

Um verkföll:  

  • Verkafólk hefur rétt á að fara í verkföll. Þau eru öflugasta tæki verkafólks til að þrýsta á kröfur sínar þegar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar.
  • Verkfall þarf að fá meirihlutasamþykki í kosningu á meðal þess verkafólks sem fer í verkfallið. 
  • Kosningin er nafnlaus og atvinnurekandi getur ekki komist að því hver kaus með og hver á móti verkfallinu. 
  • Það er óheimilt og ólöglegt að segja upp starfsfólki meðan á verkfalli stendur, og atvinnurekanda er óheimilt að ráða inn nýtt fólk til vinnu til að gegna störfum þeirra sem eru í verkfalli.

Fyrir hvern dag sem félagsfólk missir tekjur vegna verkfalls greiðir Efling verkfallsstyrk. Sækja þarf um styrkinn og nánari skilyrði kunna að vera sett, svo sem að mæta á tiltekinn stað til að skila umsókn.