Efling skýtur lögmæti miðlunartillögu til Héraðsdóms

Vegna viðbragðsleysis Guðmundar Inga Guðbrandssonar félags- og vinnumarkaðsráðherra við stjórnsýslukæru sem Efling – stéttarfélag lagði fram við ráðherrann þann 30. janúar hefur félagið ákveðið að skjóta kröfu um ógildingu miðlunartillögu til almennra dómstóla.

Verður ríkissáttasemjara stefnt fyrir Héraðsdóm þar sem Efling mun krefjast ógildingar á miðlunartillögu embættisins sem kynnt var í fjölmiðlum 26. janúar síðastliðinn.

Efling hefur frá upphafi hafnað lögmæti tillögunnar, sem lögð var fram þvert á ákvæði laga um að ráðgast bera við deiluaðila og er auk þess í einu og öllu samhljóða kröfum Samtaka atvinnulífsins. Öll heildarsamtök launafólks á Íslandi hafa gagnrýnt meðhöndlun ríkissáttasemjara á málinu.

Stefna Eflingar verður lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag og óskað verður eftir flýtimeðferð.

„Við höfum sagt frá byrjun að miðlunartillaga ríkissáttasemjar er lögleysa og markleysa. Embættið hefur misnotað valdheimildir sínar til að taka afstöðu með sjónarmiðum annars aðilans í kjaradeilu og reyni að svipta hinn aðilann, sem í þessu tilviki er tekjulægsta verkafólk landsins, sjálfstæðum samningsrétti sínum. Við eigum heimtingu á að dómstólar fjalli um þetta framferði,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.