Efling hefur samstarf á rekstri félagakerfisins Total

Efling hefur undirritað samning um rekstur félagakerfisins Total ásamt AFL Starfsgreinafélagi, Öldunni Stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands og Verkalýðsfélagi Hlíf. Ásamt því hafa Efling, Aldan, Stéttafélag Vesturlands og Hlíf keypt hluti í Félagakerfi Total ehf., sem var áður í eigu AFLs.

Félagakerfið Total er félagakerfi sem er hannað af AFL Starfsgreinafélagi fyrir stéttarfélög. Þróun á Total hófst árið 2011 þegar AFL Starfsgreinafélag lét gera orlofshúsakerfi fyrir sig. Árið 2016 tók AFL í notkun félagakerfishluta sem m.a. tekur á móti skilagreinum og heldur utan um styrki og sjúkradagpeninga. Total hefur verið í stöðugri þróun frá innleiðingu félagakerfisins.

Þessi stöðuga þróun út frá þörfum stéttarfélaga hefur byggt upp öflugt kerfi sem inniheldur m.a. kosningakerfi, hópa- og skeytakerfi, vefverslun, orlofskerfi og aðgangsstýrikerfi fyrir orlofsíbúðir, iðgjaldakerfi og styrkja og dagpeningakerfi. Að auki er unnt að vinna fjölda skýrslna úr kerfinu. Total tengist Navision / BC bókhaldskerfi með veflausn og með þeirri samþættingu verður innheimta iðgjalda og afgreiðsla styrkja og dagpeninga sjálfvirk.

Kerfið er með mínar síður lausn fyrir félagsfólk sem nú þegar er aðgengileg á sjö tungumálum og unnið er að fjölgun þeirra. Mínar síður er öflug sjálfsafgreiðslulausn fyrir félagsfólk og mætir þörfum félagsfólks stéttarfélaga einstaklega vel.

Unnið er að innleiðingaráætlun fyrir Eflingu og mun innleiðingu ljúka á árinu. Efling fagnar þessari þróun og lítur björtum augum á samstarf við önnur stéttarfélög í áframhaldandi þróun félagakerfis Total.