Lágmarkstekjur fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku), skulu vera sem hér segir fyrir þá starfsmenn sem eftir að 18 ára aldri er náð hafa starfað a.m.k sex mánuði hjá sama fyrirtæki (þó að lágmarki 900 stundir):
- apríl 2019 kr. 317.000 á mánuði
- apríl 2020 kr. 335.000 á mánuði
- janúar 2021 kr. 351.000 á mánuði
- janúar 2022 kr. 368.000 á mánuði
Lágmarkstekjutrygging þarf þó ekki að hafa áhrif á lágmarkstaxta þó það gæti einfaldað launaútreikning atvinnurekenda. Eins og áður segir miðast lágmarkstekjur við 18 ára aldur og sex mánaða starfsaldur. Eftir að þeim skilyrðum hefur verið náð hefur starfsmaður rétt á að fá greiddar lágmarkstekjur fyrir fullt starf óháð launataxta hans. Sem dæmi má nefna að sé launataxti, mánaðarlaun, starfsmanns í fullu starfi 351.000 kr. eftir 1. janúar 2021, hann orðinn 18 ára og hefur unnið hjá fyrirtækinu í sex mánuði þá gætu laun hans á launaseðli litið svona út:
Mánaðarlaun 340.000 kr.
Tekjutrygging 11.000 kr.
Laun samtals: 351.000 kr.
Vert er að taka fram að skv. lögum um starfsmenn í hlutastörfum nr. 10/2004 þá skulu starfsmenn í hlutastörfum ,,ekki njóta hlutfallslega lakari kjara.“