Fullur samstarfsvilji til að hefta útbreiðslu Covid-19

Efling stéttarfélag hefur svarað minnisblaði ríkislögreglustjóra, Embættis landlæknis og sóttvarnarlæknis vegna útbreiðslu-Covid 19 veirunnar og verkfalla, sem sent var til aðila að yfirstandandi kjaradeilum. Í svarinu gerir Efling grein fyrir þeim ráðstöfunum sem félagið hefur þegar gripið til og greinir frá afstöðu sinni. Félagið lýsir eindregnum vilja til að bregðast við frekari athugasemdum, óskum og leiðbeiningum.Staða Eflingar er ólík öðrum stéttarfélögum sem fengu erindið, þar sem ótímabundnar verkfallsaðgerðir Eflingar voru þegar hafnar þegar greint var frá fyrsta Covid-19 smitinu hér á landi þann 28. febrúar síðastliðinn. Efling leitaði að eigin frumkvæði eftir leiðbeiningum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra sama dag og fylgdi í kjölfarið leiðbeiningum embættisins við tafarlausa veitingu undanþága vegna verkfallsaðgerða sorphirðumanna og starfsfólks á Velferðarsviði.Vegna víðtækra undanþága eru félagsmenn Eflingar í verkfalli nær allir starfandi í leikskólum og grunnskólum, og eru það þeir vinnustaðir þar sem verkfallsaðgerðanna gætir helst. Aðgerðirnar hafa leitt til þess að deildum og stofnunum hefur verið lokað. Félagið telur að þær afleiðingar verkfallsaðgerða hamli ekki opinberum sóttvarnaraðgerðum, nema síður sé.Í svarinu kemur fram að undanþágubeiðnir vegna verkfallsaðgerða gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem hefjast á 9. mars næstkomandi hafi enn ekki borist en að gert sé ráð fyrir að þær verði veittar á sömu forsendum og hjá Reykjavíkurborg.Ítrekað er að Efling muni bregðast hratt við öllum frekari athugasemdum eða tilmælum sem berast kunni frá yfirvöldum vegna skörunar verkfallsaðgerða við sóttvarnaraðgerðir.