Félags- og trúnaðarráðsfundur

Efling-stéttarfélag boðar til sameiginlegs félags- og trúnaðarráðsfundar þann 11. mars næstkomandi klukkan 19.30. Fundurinn verður haldinn með fjarfundabúnaðinum Zoom.Samkvæmt lögum Eflingar ber að halda félagsfundi reglulega yfir starfsárið og verður félagsfundurinn sameinaður með trúnaðarráðsfundi eins og áður hefur tíðkast. Dagskrá: 

  1. Grænbókarvinna ríkisstjórnarinnar
  2. Ný heimasíða Eflingar – kynning 
  3. Önnur mál

Fyrst á dagskrá fundarins verður kynning á lítt þekktu verkefni ríkisstjórnar Íslands, Grænbók um vinnumarkaðsmál, sem er tilraun til endurupptöku hins svokallaða SALEK-samstarfs. Þessar hugmyndir ganga út á að skerða sjálfstæðan samningsrétt stéttarfélaga, takmarka verkfallsheimildir og setja launasetningu í landinu í hendur sérfræðinganefndar. Á fundinum verða Eflingarfélagar upplýstir um aðdraganda og samhengi þessa, skýrt frá þeirri umræðu sem hefur átt sér stað innan ASÍ um Grænbókar-þátttöku og opnað á umræðu þar sem félagsmenn fá að tjá hug sinn til málsins. Á fundum trúnaðarráðs síðastliðið hálft ár hafa umræður farið fram í hópum með aðstoð sjálfboðaliða úr röðum félagsmanna. Hefur þetta fyrirkomulag gefist mjög vel og leitt til góðrar og málefnalegrar umræðu. Þessi leið verður áfram farin á fundinum til að halda utan um umræður. Í lok fundar verður stutt kynning á væntanlegri nýrri heimasíðu Eflingar, þar sem framsetning og viðmót hefur verið stórbætt.Ágæt reynsla er komin á að halda stærri fundi í félaginu í gegnum fjarfundabúnað, en slíkt fyrirkomulag kann að vera framandi fyrir mörgum félagsmönnum. Félagsmenn eru beðnir að skrá sig fyrirfram á fundinn með því að smella á tengil og fá þeir í kjölfarið sendan tengil til að komast inn á fundinn í gegnum Zoom-fjarfundaforritið. Eflingarfélagar eru hvattir til að fjölmenna á þennan fund um mikilvægt hagsmunamál okkar allra. Félagar eru beðnir um að skrá sig rafrænt hér. Ef spurningar vakna eða ef aðstoð þarf við skráningu má hafa samband við Félagssvið í s. 510-7500 eða á felagssvid@efling.is.