Nú er tími til dirfsku og dáða – Gleðilegan baráttudag verkalýðsins

Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda upp á kant við þá.“ Svo mælir seðlabankastjóri. Fyrir okkur sem tilheyrum stétt verka- og láglaunafólks er ekkert augljósara. Einnig er augljóst að vinnuaflið tilheyrir ekki þeim hagsmunahópum sem stjórna lýðveldinu. En við þekkjum vel á eigin skinni hvernig það er að lenda upp á kant við stjórana. Sjúkleiki ástandsins birtist hvergi betur en í þeirri augljósu staðreynd að ekkert vekur upp hatur þeirra sem telja sig eigendur Íslands með viðlíka hætti og lýðræðisleg barátta vinnandi fólks fyrir efnahagslegu réttlæti.Verka- og láglaunafólk á höfuðborgarsvæðinu tekst á við ótrúlegar áskoranir á degi hverjum. Ekki aðeins er því ætlað að komast af á launum sem eru langt undir framfærsluviðmiðum í einni dýrustu borg veraldar eða lifa á atvinnuleysisbótum sem eru skelfilega lágar. Nei, því er líka boðið upp á algróðavæddan húsnæðismarkað forréttindafólks. Þau sem tilheyra efri stéttum íslensks samfélags láta eins og efnahagslegt óréttlæti hafi ekki raunverulegar og hræðilegar afleiðingar fyrir samborgara þeirra. Þau láta eins og þau skilji ekki að þjóðfélag sem leyfir stéttaskiptingu og misskiptingu að festast í sessi og endurframleiðast á milli kynslóða er „ógeðslegt þjóðfélag“ sem svíkur vinnuaflið og börn þess um sanngirni og réttlæti. Með þessu opinbera þau algjöran skort á veruleikatengingu, skort sem aðeins þau sem hafa allt til alls geta leyft sér.Þau sem hafa efnahagsleg eða pólitísk völd óttast breytingar meira en allt. Þau fela ótta sinn undir hótunum eða orðagjálfri. En við sem tilheyrum stétt verka- og láglaunafólks höfum ekkert að óttast. Nema óbreytt ástand. Við ætlum ekki að sætta okkur við stjórnlausa tilætlunarsemi valdastéttarinnar í okkar garð. Betra, lýðræðislegra og réttlátara Ísland sem ekki er stjórnað í þágu hinna ríku er mögulegt. Það er vissulega stórt mál að berjast við hagsmunahópana en með samstöðuna að vopni getur sigurinn orðið okkar.Sjáumst í stéttabaráttunni, gleðilegan baráttudag verkalýðsins.Sólveig Anna Jónsdóttur, formaður EflingarBirt í Fréttablaðinu 30.04.2021