Kaupmáttur almennings mildaði kreppuna – Efling leiðréttir rangfærslur SA og Viðskiptaráðs

24. 06, 2021

Undanfarið hefur nokkuð borið á því að helstu talsmenn atvinnurekenda hafi farið afvega í greiningum sínum á Kóvid-kreppunni: tilurð hennar, umfangi og getu Íslands til að vinna sig út úr henni á ný.Efling leiðréttir rangfærslur talsmanna atvinnurekenda í nýútkominni skýrslu.Talsmenn atvinnurekenda hafa fullyrt  eftirfarandi:

  • Hátt launastig á Íslandi hafi verið farið að draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi fyrir Kóvid-kreppuna, þ.e. á árinu 2019.
  • Launahækkanir Lífskjarasamningsins 2019 til 2021 hafi gert kreppuna dýpri en ella hefði orðið (þ.e. ef kjarasamningurinn hefði verið tekinn úr sambandi).
  • Hátt launastig á Íslandi muni hamla uppsveiflunni þegar sóttvörnum lýkur og auka verðbólgu.

Efling – stéttarfélag hafnar öllum þessum fullyrðingum. Traust rök styðja í reynd hið gagnstæða, að viðhald kaupmáttar almenns launafólks í gegnum kreppuna hafi mildað kreppuáhrifin svo um munaði. Svör Eflingar við ofangreindum fullyrðingum Viðskiptaráðs og SA eru eftirfarandi:

  • Ef Lífskjarasamningurinn hefði verið tekinn úr sambandi hefði kreppan orðið mun dýpri, því innlend eftirspurn hefi dregist meira saman og fleiri störf tapast.
  • Viðhald kaupmáttarstigs láglaunafólks, þrátt fyrir lítillega hækkun verðbólgu, hefur jákvæð áhrif á uppsveifluna sem þegar er hafin og virðist ætla að verða þróttmikil.
  • Greiningaraðilar (Seðlabankinn, Hagstofan, ASÍ, Íslandsbanki og Landsbankinn) tengja hækkun verðbólgu einkum við gengisbreytingar, verðlagsþróun erlendis og við flæði fjármagns til og frá landinu. Lítið samband hefur verið milli launahækkana og verðbólgu á Íslandi á síðustu árum.

Það er því rík ástæða til að vara við einhliða og afvegaleiðandi málflutningi helstu samtaka atvinnurekenda um launamál og kreppur.Á uppsveiflunni er síðan mikilvægt að slá ekki af, hvorki í aðgerðum ríkisvaldsins né í viðhaldi kaupmáttar almennings.Ríkið má þannig ekki draga úr aðgerðum sínum of fljótt né grípa til niðurskurðar útgjalda eða skattahækkana á almenning. Ef það væri gert yrði uppsveiflan veikari eða gæti jafnvel snúist í samdrátt á ný.

Lesa skýrslu