Select Page

Einstaklingsráðgjöf

Ertu án vinnu? Gætir þú þegið góð ráð til að bæta stöðu þína? Eru aðrir þættir í lífinu sem eru að flækjast fyrir þér í atvinnuleysinu?
Ef svo er, þá gæti ókeypis einstaklingsráðgjöf fyrir Eflingarfélaga án vinnu verið eitthvað fyrir þig.

Boðið er upp á 40 mínútna persónulega ráðgjöf náms- og starfsráðgjafa um réttindi, atvinnuleit, starfsþróun og náms- og fræðsluúrræði. Þá er einnig hægt að fá ráðgjöf varðandi félagsleg úrræði sem bjóðast á Íslandi.
Ráðgjöfin er veitt á íslensku og ensku. Hægt er að fá túlk sé þess þörf en þá þarf að láta vita af því með fyrirvara.
Hikaðu ekki við að nýta þetta tækifæri og panta tíma með því að senda tölvupóst á efling@efling.is eða hringja í síma 510-7500 frá 15. janúar 2021. Vinsamlega merkið tölvupóstinn „einstaklingsráðgjöf“ í efnislínu.
Ráðgjöfin og Eflingarfélögum að kostnaðalausu og fer fram annan hvern miðvikudag frá 17. febrúar 2021 á skrifstofu Eflingar, Guðrúnartúni 1.

Námskeið í umönnun

Viltu auka möguleika þína á nýju starfi?

Eflingarfélögum í atvinnuleit stendur til boða ókeypis þátttaka í þriggja vikna námskeiði í umönnun. Kennsla fer fram í húsakynnum Mímis við Höfðabakka 9 frá 8.40-15.50 alla virka daga á tímabilinu 1. til 24. mars næstkomandi.
Námskeiðið var áður haldið síðastliðið haust við svo góðan róm þátttakenda að ákveðið var að endurtaka leikinn og bjóða fleirum upp á þetta tækifæri til að auka við möguleika sína á vinnumarkaði.
Námskeiðið er kostað af heilbrigðisráðuneytinu í samstarfi við Eflingu og Mími og tekur mið af námskrá sambærilegra fagnámskeiða fyrir starfsmenn í félags- og heilbrigðisþjónustu.
Námskeiðið telur 82 klukkustundir með leiðbeinanda, auk 20 klukkustunda starfsþjálfunar í kjölfar námskeiðsins fyrir nemendur án starfsreynslu við umönnun. Meðal námsþátta eru aðstoð og umönnun, skyndihjálp, sjálfsstyrking, samskipti, líkamsbeiting og fleira. Námskráin er vottuð af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er hægt að fá námið metið til eininga á framhaldsskólastigi og launahækkunar í framtíðarstarfi.
Námskeiðið er kennt á íslensku og þurfa nemendur því að búa yfir grundvallarskilningi á tungumálinu til að taka þátt samkvæmt kröfulýsingu frá hinu opinbera um starfsfólk á hjúkrunar- og dvalarheimilum.
Einungis er um 18 pláss að ræða. Valið verður úr hópi umsækjenda en öllum verður svarað.
Karlar eru sérstaklega hvattir til að nýta sér úrræðið.
Skráning fer fram með tölvupósti á efling@efling.is eða í síma 510-7500. Vinsamlega gefið upp nafn, kennitölu, netfang og símanúmer í tölvupósti. Hægt er að óska eftir frekari upplýsingum í gegnum sama netfang og síma.

Aftur til vinnu

Efling býður upp á námskeið fyrir atvinnuleitendur undir heitinu Aftur til vinnu. Kennsla fer fram í 14 manna hópum og kenna tveir kennarar hverjum hópi. Fyrra námskeiðið er ætlað félögum Eflingar sem hafa minni tölvufærni og þurfa ráðgjöf varðandi atvinnuleitina.
Síðara námskeiðið er sniðið að þeim sem eru lengra komin en vilja bæta færni sína á einhvern hátt. Leiðbeinendur á námskeiðunum búa yfir sérþekkingu á að leiðbeina atvinnuleitendum, hjálpa þeim að ná betri færni og veita faglega ráðgjöf.

Grunnnámskeið í atvinnuleit
17. febrúar kl. 13.00 – 17.00
Athugið að námskeiðið er ætlað þeim sem búa yfir lítilli tölvufærni.
Lögð er áhersla á notkun ritvinnsluforrits og uppsetningu ferilskráa. Farið er yfir hvernig skjöl eru vistuð yfir á pdf, fjallað um sendingu og móttöku tölvupósts með tilliti til atvinnuleitar og hvar og hvernig má sækja um atvinnu á netinu. Að námskeiði loknu ættu nemendur að hafa lokið við gerð ferilskrár, búa yfir aukinni færni í rafrænum samskiptum og þekkja betur til helstu atvinnumiðla.

Hagnýt ráð í atvinnuleit
24. febrúar kl. 13.00-16.00
Athugið að námskeiðið er ætlað nemendur sem vilja auka hæfni sína til atvinnuleitar og búa yfir tölvufærni.
Megináhersla er lögð á hagnýt ráð í atvinnuviðtölum, ferlið við að sækja um starf og hvað gagnast við gerð kynningarbréfs. Vinnumiðlunin Alfreð verður skoðuð sérstaklega þar sem nemandi býr til sinn eiginn prófíl eða bætir sinn prófíl og undirbýr eða betrumbætir þau viðhengi sem fylgja þurfa atvinnuumsókn. Einnig verða kynnt nám og námskeið sem geta styrkt fólk í starfsþróun og fræðsluúrræðum og réttindum atvinnulausra gerð skil. Að loknu námskeiði ætti nemandi að vera betur undirbúinn fyrir atvinnuviðtal, hafa aukið færni sína og sjálfstraust í atvinnuleitinni.

Kennsla fer fram hjá Mími, Höfðabakka 9.
Skráning er hjá Eflingu-stéttarfélagi í síma 510 7500 eða á netfangið efling@efling.is. Námskeiðin eru opin íslensku- og enskumælandi og eru þau félagsmönnum Eflingar að kostnaðarlausu.

DROP-INN

Ef þú ert í atvinnuleit, átt frí úr vinnu eða ert af öðrum ástæðum laus við gæti Drop-INN verið eitthvað fyrir þig. Drop-INN felur í sér fjölbreytt fræðsluerindi alla fimmtudagsmorgna milli kl. 10.00 og 12.00. Fyrsti fyrirlestur fer fram fimmtudaginn 28. janúar og verðum við með áhugaverða dagskrá fram á vor þar sem umfjöllunarefnið verður allt milli himins og jarðar.

Eflingarfélagar eru hvattir til að nýta sér þessa spennandi dagskrá. Viðburðirnir fara fram á 4. hæð, Guðrúnartúni 1 þegar samkomutakmarkanir leyfa og eru einnig sendir út í lifandi streymi á facebook síðu Eflingar.

Sjá dagskrá

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere