Select Page

Ræstingar eru afar mikilvæg störf. Þau eru krefjandi og þeim fylgir mikil ábyrgð. Brýnt er að starfsmenn í ræstingu séu meðvitaðir um réttindi sín og kjör. Með því móti eiga þeir auðveldara með að tryggja réttindi sín.

Þessar upplýsingar eru fyrir starfsmenn sem vinna við ræstingar á almennum vinnumarkaði, þ.e. hjá einkafyrirtækjum. Athygli er þó vakin á því að algengt er að starfsmenn í þessum hópi ræsti opinberar stofnanir.

Vinsamlegast athugið að þessar upplýsingar eiga ekki við um þá sem sjá um þrif á hótelum og veitingahúsum. 

Nauðsynlegt er að þekkja vel eftirfarandi skilgreiningar úr kjarasamningi um ræstingu

Afmörkun ræstingarsvæða (seilingarhæð)
Ræstingarsvæði afmarkast af gólffleti og mögulegri vinnuhæð manns sem stendur á gólfi og notar til þess þar til gerð áhöld.

Regluleg ræsting
Regluleg ræsting er vinna við að fjarlægja óhreinindi af fleti samkvæmt starfslýsingu neðan seilingarhæðar. Til þess getur þurft að nota vatn, áhöld, tæki og ræstingarefni.

Aukaverk
Aukaverk eru tilfallandi verk sem ekki eru skilgreind í starfslýsingu reglulegrar ræstingar og eru innan seilingarhæðar. Starfsmaður skal hafa nægan tíma til að sinna þessum verkum með réttum áhöldum og efnum.

Hreingerning
Hreingerning er þegar flötur er hreingerður af óhreinindum sem ekki hverfa við reglulega ræstingu og aukaverk.

Kjör ræstingarfólks ráðast að miklu leyti af vinnufyrirkomulagi. Vinnufyrirkomulagið getur verið þrenns lags.

  1. Tímamæld ákvæðisvinna
  2. Tímavinna
  3. Vaktavinna

Almenn réttindi sem eiga við allt starfsfólk í ræstingum

Útkall
Ef kallað er út í ræstingarvinnu sérstaklega, skal greiða að lágmarki 4 klst. skv. viðkomandi taxta starfsmanns.
Hlífðarföt
Starfsmaður á að fá afhentan nauðsynlegan hlífðarfatnað, þ.m.t. skó og hanska, frá atvinnurekanda og er hann eign atvinnurekanda. Ef misbrestur verður á því greiðist sérstakt fatagjald kr. 12,53 fyrir hverja klst.
Réttindi afleysingafólks í ræstingu
• Eftir eins mánaðar samfellda vinnu, tveggja daga veikindaréttur.
• Eftir uppsafnaða vinnu (daga – mánuði – ár) þótt ekki hafi verið unnið samfellt, fær afleysingafólk í tímavinnu starfsaldurshækkanir.
Biðtími
Ef ekki er hægt að hefja ræstingu í húsnæði á venjubundnum tíma vegna aðstæðna á vinnustað og starfsmaður hefur ekki verið látinn vita fyrirfram, skal hann fá greitt skv. viðkomandi taxta á meðan hann bíður á verkstað. Starfsmaður ber ábyrgð á að koma upplýsingum um lengd og ástæður biðtíma til yfirmanns síns eins fljótt og unnt er.
Stykkjaþvottur
Starfsmenn, sem taka að sér þvott utan vinnustaðar, t.d. á handklæðum eða öðrum sambærilegum stykkjum, skulu fá greitt fyrir það.

Tímamæld ákvæðisvinna

Í tímamældri ákvæðisvinnu vinnur þú hraðar en venjulega og ofan á tímakaup færðu 20% ákvæðisvinnuálag, þar af er 8% álag fyrir neysluhlé. Þetta þýðir að matarhlé er ekki tekið á vinnutíma því greitt er sérstaklega fyrir það í hærri taxta.

Launaflokkur 6 með 20% álagi frá 1. janúar 2021 – 31. desember 2021.

Fyrir hreingerningar á að greiða með 45% álag.

Vinna umfram 40 stundir á viku, skal greiða með yfirvinnu. Laun á stórhátíðardögum eru greidd á stórhátíðarkaupi og laun á helgidögum er greitt á yfirvinnutaxta.

Verklýsing

Áður en starf er hafið á yfirmaður að afhenda starfsmanni skriflega verklýsingu ásamt teikningu af ræstingarsvæðinu þar á að koma skýrt fram hvað á að ræsta og með hvaða áherslum, á hvaða tíma dags og hversu oft. Verklýsingin á að vera aðgengileg og það verður að uppfæra um leið og breytingar verða á vinnunni.

Ferðir á milli ræstingasvæða

Starfsmenn í tímamældri ákvæðisvinnu skulu eiga kost á að minnasta kosti tveggja tíma samelldri vinnu. Innan þess tíma geta verið eitt eða fleiri ræstingarsvæði. Ef vinna starfsmanns er samsett af tveimur eða fleiri ræstingarsvæðum skal greiða 15 mínútna ferðatíma milli svæða. Þegar meira en 1,5 klst. líður á milli ræstingar á tilteknum svæðum er ekki greitt fyrir ferðir milli svæða. Ef notaður er eigin bíll að ósk vinnuveitanda á greiðsla að miðast við ekna kílómetra eða fasta krónutölu.

Tímavinna

Í tímavinnu vinnur þú á venjulegum vinnuhraða og átt rétt á 35 mínútna neysluhléi á launum fyrir fullt starf á dagvinnutíma. Hefðbundinn dagvinnutími er frá 8.00 til 17.00. Eftir kl. 17.00 reiknast 80% yfirvinnuálag á tímavinnu og einnig þegar hreingerning er unnin. Lágmarksgreiðsla í tímavinnu eru 3 klst.

Launaflokkur 6 frá 1. janúar 2021 – 31. desember 2021. 

 

Vaktavinna

Í vaktavinnu vinnur þú á venjulegum vinnuhraða og færð álag á launin þegar unnið er utan dagvinnutímabils. Starfsmenn sem ræsta opinberar stofnanir eiga að fá hærra álag um nætur og helgar, 55% í stað 45%. Ef þú ert ráðin/n í vaktavinnu á það að koma fram á ráðningarsamningi.

Launaflokkur 6 frá 1. janúar 2021 – 31. desember 2021

Ef unnið er umfram starfshlutfall í hlutastarfi á að greiða dagvinnu á dagvinnutímabili, yfirvinnu á yfirvinnutímabili og stórhátíðarkaup á stórhátíðardögum.

Alla vinnu umfram 100% á að greiða með yfirvinnukaupi og á stórhátíðardögum skal greiða
stórhátíðarkaup.

Yfirvinnukaup skal greitt fyrir hreingerningar.

Á stórhátíðardögum skal greiða 90% álag auk ávinnslu vetrarfrís.

Á öðrum helgidögum á að greiða 45% álag fyrir ræstingu á einkastofnun/fyrirtæki og 55% álag
fyrir ræstingu á opinberri stofnun. Jafnframt ávinnur starfsmaður sér vetrarfrí.

Matar- og kaffitími

Starfsmaður fær 5 mínútur í neysluhlé fyrir hvern unninn klukkutíma sem gerir 40 mínútur á dag fyrir fullt starf.

Vaktir og skipulag vakta

Hægt er að raða vöktum á alla daga vikunnar – 100% vaktavinna er 40 klst. á viku.

Ef unnið er fimm daga vikunnar og alltaf á tímabilinu 17:00 til 08:00 er 100% vaktavinna 38 klst. á viku.

Vakt skal ekki vera lengri en 12 klst. og ekki styttri en 3 klst.

Vakt á alltaf að vera samfelld.

Á vaktaskrá skal koma fram hve löng vaktin er, hvenær hún hefst og henni lýkur.

Vaktaskrá skal gerð fyrir 4 vikur í senn og liggja fyrir a.m.k. viku áður en vinna hefst eftir henni.

Tilkynna þarf breytingar á vaktaskrá með a.m.k. viku fyrirvara.

Vetrarfrí

Starfsmenn í vaktavinnu ávinna sér 12 vetrarfrísdaga fyrir vinnu á helgidögum. Miðað er við að frídagarnir séu teknir á tímabilinu 1. október – 1. maí en einnig er hægt að semja um greiðslur í stað frídaga, 8 klst. í dagvinnu fyrir hvern frídag miðað við fullt starf.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere