Select Page

Um félagið

 

Efling stéttarfélag

Efling –stéttarfélag var stofnað í desember 1998 og tók til starfa um áramótin 1999. Félagið varð til við sameiningu Dagsbrúnar & Framsóknar-stéttarfélags við Starfsmannafélagið Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum. Við sameininguna varð til næst stærsta stéttarfélag á landinu með um 14.000 félagsmenn. Félagið sameinaðist Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík um áramótin 1999-2000. Við það urðu félagsmenn um 16.000. Frá og með 1. janúar 2009 sameinaðist Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn Eflingu-stéttarfélagið.  Þá voru félagsmenn í kringum 21.000 en fækkaði niður í um 18.500 í kjölfar efnahagshrunsins. Í dag eru félagsmenn um 27.000. Stærstu viðsemjendur félagsins eru Samtök atvinnulífsins, Reykjavíkurborg, Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Fjármálaráðuneytið og Launanefnd sveitarfélaga. Skrifstofa félagsins er að Sætúni 1, og kennitala Eflingar er 701298-2259.

Stærstu vinnustaðir innan Eflingar-stéttarfélags eru hjá Reykjavíkurborg, fjármálaráðuneyti, skipafélögunum, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Securitas, ISS, olíufélögunum og Kópavogskaupstað. Trúnaðarmenn Eflingar-stéttarfélags eru um 250. Stjórn félagsins hefur lagt á það áherslu að rækta vel sambandið við trúnaðarmenn þar sem þeir eru einn mikilvægasti hlekkurinn í öllu starfi félagsins. Unnið er markvisst að aukinni fræðslu trúnaðarmanna.

Mjög margbreytileg störf eru innan Eflingar-stéttarfélags og var fjöldi launagreiðenda um 2.000 á árinu 2015.

Starfsmenn með félagsaðild að Eflingu vinna almenn störf verkafólks á sviðum flutninga, byggingarvinnu, við vegagerð og hafnarvinnu, landbúnaðarstörf og ýmsa vélavinnu sem tengist verklegum framkvæmdum.

Þá vinna félagsmenn Eflingar í fjölda starfa í þjónustu ríkis og sveitarfélaga s.s. í umönnunarstörfum þ.á.m. í heimaþjónustu, á leikskólum, í sjúkrahúsum og stofnunum, þvottahúsum og saumastofum sjúkrastofnana.

Félagsmenn eru einnig starfsmenn í mötuneytum og starfa við ræstingar og hvers konar hreinlætisstörf, í efnalaugum og þvottahúsum.

Almenn störf á veitinga- og gististöðum eru unnin af félagsmönnum Eflingar.

Einnig eru þeir sem vinna við öryggisvörslu og fjármagnsflutninga í Eflingu-stéttarfélagi. Þá eru almenn störf í iðnaði og verksmiðjum, við vinnslu sjávarafurða og landbúnaðarafurða í Eflingu.

Þeir sem vinna almenn störf við bensínafgreiðslu og við olíu, bón, ryðvarnarstöðvar og á dekkjaverkstæðum eru í Eflingu-stéttarfélagi. Bifreiðastjórar á vörubifreiðum eiga félagsaðild að Eflingu.

Efling gerir aðalkjarasamninga fyrir almennt verkafólk, samninga á hótelum og veitingahúsum, samning fyrir iðnverkafólk, og samninga við þrjú sveitarfélög, aðalkjarasamning við ríkið og samninga við hjúkrunarheimili.

Efling-stéttarfélag hefur mótað sér stefnu um að vera öflugt á sviði starfs- og símenntunar. Fjölmörg námskeið eru haldin á vegum félagsins á hverju ári, en einnig hefur félagið gert samninga við skóla og stofnanir um afslátt af fullu verði námskeiða. Þá stefnir starfsmenntasjóður Flóabandalagsins að víðtæku starfi að menntamálum fyrir félagsmenn aðildarfélaganna. Helstu starfsmenntasjóðir Flóabandalagsins eru staðsettir að Sætúni 1.

Í stjórn Eflingar sitja 15 stjórnarmenn. Í trúnaðarráði sitja 130 fulltrúar og sjóðum félagsins stjórna fimm manna stjórnir.

Efling-stéttarfélag gefur út félagsblað sex sinnum á ári sem fjallar um málefni félagsins sem efst eru á baugi hverju sinni. Félagsblaðið er gefið út í 18.000 eintökum.

Sjóðir félagsins standa straum af kostnaði við félagsstarf, skrifstofu og starfsemi á vegum félagsins. Helstu sjóðir eru sjúkrasjóður, vinnudeilusjóður, orlofssjóður og félagssjóður.

Sjúkrasjóðir félagsins annast greiðslur til félagsmanna sem lenda í veikindum og slysum. Á árinu 2015 fengu um 5.000 manns einhverjar greiðslur úr sjóðnum, en bætur úr sjúkrasjóði Eflingar á því ári voru um 530 milljónir króna.

Um 50 orlofshús og íbúðir eru í eigu félagsins. Auk þess sem á sumrin er bætt við húsum til útleigu vegna mikillar eftirspurnar á háannatíma sumarleigunnar.

Á vegum félagsins starfa nefndir sem sinna afmörkuðum sviðum í félagsstarfinu. Ein þeirra er ferðanefnd félagsins sem skipuleggur ferðir á vegum félagsins innan lands og utan.

Starfsmenn á skrifstofu Eflingar-stéttarfélags eru um 60. Einnig gegna lögmenn störfum fyrir félagið.

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar-stéttarfélags og Agnieszka Ewa Ziółkowska er varaformaður.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere