Skipulagsbreytingar á skrifstofum Eflingar 2022

B-listinn, sem sigraði í formanns- og stjórnarkosningum í Eflingu í febrúar á þessu ári, lagði í stefnuskrá sinni áherslu á umbætur í rekstri félagsins. Í stefnuskránni var rætt um nauðsyn þess að endurskoða starfslýsingar og meta mönnunarþörf skrifstofunnar auk annarra endurbóta í skipulagi starfsmannamála. Þá vildi listinn taka upp nýtt, gagnsætt launakerfi. 

Stjórn Eflingar hefur nú samþykkt umfangsmiklar skipulags- og rekstrarbreytingar á skrifstofu félagsins í samræmi við stefnu B-listans.

Skipulagsbreytingarnar: Samantekt

Stjórn vill að skipulag og starfshættir á skrifstofu Eflingar séu til fyrirmyndar. Safnast hefur upp ósamræmi, ógagnsæi og úreltar venjur í ráðningarkjörum starfsfólks. Þetta hefur hamlað starfsemi félagsins og er að mati stjórnar tímabært að taka á því.

Stjórn vill tryggja jafnrétti, samræmi, sanngirni og gagnsæi í ráðningarkjörum og í þeim tilgangi verða innleidd endurskoðuð ráðningarkjör fyrir alla starfsmenn á skrifstofum félagsins. Breytingin felur í sér breytta launasetningu allra starfa samkvæmt nýju og endurbættu launakerfi, endurskoðun á fyrirkomulagi yfirvinnu, breytingu á stéttarfélagsaðild, breytingu á greiðslum vegna aksturskostnaðar og fleira.

Einnig verður um að ræða heildarendurskoðun á mannaflaþörf, starfslýsingum, hæfniskröfum og verksviði allra starfa á skrifstofum félagsins. Markmiðið er að tryggja að heildarumfang starfsmannahalds og hæfniskröfur einstakra starfa séu í samræmi við þarfir félagsins. Verkefni sviða verða endurskoðuð, fjöldi stöðugilda á hverju sviði endurmetinn frá grunni og starfslýsingar endurskoðaðar.

Þar sem þessar umbætur fela í sér breytingar á ráðningarkjörum allra starfsmanna er óhjákvæmilegt að segja upp öllum núgildandi ráðningarsamningum. Verður það gert frá og með mánaðarmótunum apríl-maí. Krefst þetta samráðs við trúnaðarmenn starfsfólks samkvæmt lögum um hópuppsagnir nr. 63/2000. Hefur það samráð nú farið fram og skilað sér í bókun sem felur í sér samkomulag um ákveðin atriði, nánar tiltekið lengingu sumra uppsagnarfresta, eftirgjöf af kröfu um vinnuskyldu og sveigjanleika gagnvart þeim sem vilja leita annarrar vinnu.

Til að gæta jafnræðis og standa að endurinnleiðingu ráðningarkjara á faglegan hátt verður sú leið farin að auglýsa öll störf. Núverandi starfsmenn eru hvattir til að sækja um. Þó liggur fyrir að ekki verður unnt að tryggja öllum núverandi starfsmönnum endurráðningu, þar sem fjölda stöðugilda fækkar, starfslýsingar verða breyttar og ný hæfniviðmið í sumum tilvikum innleidd.

Næstu skref og innleiðing breytinga

  • Störf voru auglýst um Páskahelgina og unnið verður að nýráðningum í samstarfi við ráðningarstofu. Auglýst er staða framkvæmdastjóra, en framkvæmdastjóri fær í kjölfarið það verkefni að fylgja eftir þessum breytingum og eftir atvikum gera aðlaganir á þeim.
  • Störf allra starfsmanna samkvæmt nýjum starfslýsingum og skipulagi undir breyttum ráðningarkjörum hefjast eins fljótt og auðið er. Allir nýir ráðningarsamningar verða tímabundnir til 6 mánaða meðan látið er reyna á nýtt skipulag.
  • Framkvæmdastjóri eða staðgengill hans upplýsir stjórn í samráði við formann um gang starfa og verkefna undir nýju skipulagi. Vænta má að komi til frekari aðlagana.
  • Gert er ráð fyrir að allir núverandi starfsmenn hafi vinnuskyldu undir óbreyttu fyrirkomulagi á uppsagnarfresti (að teknu tilliti til bókunar um samkomulag við trúnaðarmenn).

Breytingar á ráðningarkjörum

Farið yfir helstu breytingar á ráðningarkjörum sem breytingunni er ætlað ná fram.

Spurningar og svör

Spurt og svarað í einföldu máli um skipulagsbreytingar á skrifstofum Eflingar.

Auglýsing um ný störf

Vilt þú taka þátt í að byggja upp metnaðarfyllsta stéttarfélag landsins?

Bókun um samráð við trúnaðarmenn

Bókun um lok samráðsferlis skv. lögum nr. 63/2000.