Breytingar á ráðningarkjörum – einstök atriði

Stjórn vill tryggja að öll ráðningarkjör á skrifstofum Eflingar, þar með talið laun, séu sanngjörn og samkeppnishæf. Einnig þarf að ríkja gagnsæi um launsetningu starfa og hún þarf að byggja á skýrum og málefnalegum ástæðum.

Stjórn telur að launasetning starfa á skrifstofum Eflingar hafi fram að þessu verið um of handahófskennd. Laun hafa verið samsett úr ýmsum misháum viðbótargreiðslum án samræmis eða skýrra málefnalegra réttlætinga. Þetta ósamræmi í ráðningarkjörum hefur verið hamlandi fyrir starfsemina og mun auk þess aftra því að skrifstofa Eflingar komist í gegnum jafnlaunavottun, sem hún þarf að gera fyrir lok árs 2022.

Með þetta í huga verða eftirfarandi breytingar gerðar á ráðningarkjörum allra starfsmanna á skrifstofum Eflingar og bundnar í nýja ráðningarsamninga og/eða starfsmannahandbók:

  • Ekki verða lengur greidd álög eða aðrar viðbótargreiðslur á einstaklingsgrundvelli ofan á grunnlaun líkt og tíðkast hefur (t.d. “álag vegna sérverkefna”, “sviðsstjóraálag” o.s.frv.). Þess í stað verða slíkar greiðslur hluti af grunnlaunum eftir því sem við á (sjá neðar).
  • Óunnin föst yfirvinna, sem áður var inni í launum nær allra starfsmanna, verður alfarið afnumin og föst yfirvinna aðeins greidd í tilviki stjórnenda og þegar sýnt þykir að hún sé í reynd unnin (sjá neðar). Þess í stað verður þessi uppbót hluti af grunnlaunum eftir því sem við á.
  • Það fyrirkomulag að greiða öllum starfsmönnum ökutækjastyrk vegna allt að 400 km aksturs á mánuði, jafnvel í tilvikum starfsmanna sem ekki eiga bíl og aka ekki til vinnu, verður afnumið. Ökutækjastyrkir verða ekki greiddir nema þar sem raunveruleg ástæða er til og þá samkvæmt sérstöku samkomulagi. Þessi uppbót verður færð inn í regluleg laun eftir því sem tilefni er til.
  • Stuðlað verður að því að starfsfólk fái staðgóðan mat á vinnutíma á vægu verði. Engu að síður verður hætt að gefa starfsfólki ókeypis hádegismat og þess í stað tekin upp mátuleg niðurgreiðsla eða önnur lausn fundin. Tekið tillit til þessa við endurmat á launasetningu.
  • Með skipulagsbreytingunum verður unnt að afnema þá ógagnsæju launamyndun í gegnum ýmsar viðbótargreiðslur og fríðindi sem var við lýði sbr. ofangreind atriði. Þess í stað munu grunnlaun (ásamt fastri yfirvinnu í þeim tilvikum sem við á – sjá neðar) að lokinni breytingu verða ákvörðuð innan ramma launakerfis sem setur viðmið fyrir regluleg grunnlaun út frá starfsheiti. Hvert starfsheiti fær fyrirfram ákveðinn hámarks- og lágmarks launasetningarstuðul sem staðsetur starfið á kvarða í samanburði við önnur starfsheiti. Ekki á að semja um laun á einstaklingsgrundvelli umfram þessi mörk.
  • Almennt viðmið í launasetningu eru samkeppnishæf launakjör fyrir sambærilegt starfsheiti á almennum vinnumarkaði. Laun fylgi almennri launaþróun.
  • Markmið breytinganna er ekki að ná fram lækkun launa hjá starfsfólki, heldur að tryggja að laun endurspegli ábyrgð, reynslu og hæfniskröfur á gagnsæjan hátt. Laun eiga að vera sanngjörn og samkeppnishæf.
  • Með nýju launakerfi verður gerð sú nýlunda að fastsetja ákveðið hámarkslaunabil fyrir vinnustaðinn í heild, þ.e.a.s. hámarksbil milli hæstu og lægstu launa. Er þar átt við regluleg heildarlaun að meðtalinni fastri yfirvinnu. Launabil verður aldrei meira en hlutfallið 5/2. Er þetta gert til að stuðla að launajöfnuði meðal starfsfólks og sýna í verki hvernig útfæra má hóflegra launabil en tíðkast í mörgum fyrirtækjum og stofnunum.
  • Tilfallandi yfirvinna starfsfólks mun heyra til undantekninga og skipulagi vinnunnar verði hagað með tilliti til þess. Er þetta í samræmi við vaxandi kröfu um styttingu vinnuvikunnar. Tilfallandi yfirvinna þarf að hafa verið unnin með samþykki eða að beiðni næsta yfirmanns.
  • Í tilvikum starfsmanna sem þurfa að sinna fyrirfram skipulögðum verkefnum utan dagvinnutíma (t.d. á fundum og viðburðum með félagsmönnum á kvöldin) verði vinnan greidd skv. skilgreiningum og útreikningum kjarasamnings VR og SA. Boðið verði upp á samkomulag um að aukavinna verði að jafnaði tekin út með fríi á dagvinnutíma sbr. ákvæði 2.1.8 í kjarasamningi VR og SA.
  • Föst yfirvinna sem hluti af launakjörum almennra starfsmanna verður lögð niður og verður einungis hluti af ráðningarkjörum sérfræðinga og stjórnenda. Er það í samræmi við vaxandi kröfu um styttingu vinnuvikunnar hjá almennum starfsmönnum, en vinnutími hefur þegar verið styttur í tvígang á skrifstofum Eflingar á síðustu árum. Kannað verður reglulega í tímaskráningum í Tímon-stimpilklukkukerfinu hversu mikla yfirvinnu þeir starfsmenn sem eru með fasta yfirvinnu vinna í raun, og föst yfirvinna eftir atvikum endurskoðuð með tilliti til þess.
  • Stéttarfélagsaðild starfsmanna verði færð til samræmis við eðli viðkomandi starfs og þann kjarasamning sem um það gildir. Er það í samræmi við almenna afstöðu íslenskra stéttarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar varðandi það hvað telst rétt stéttarfélagsaðild. Þetta þýðir að flestir starfsmenn Eflingar, sem vinna skrifstofustörf, verða félagsmenn í VR. Um kjör starfsmanna er varðar t.d. orlof, veikindarétt, uppsagnarfrest, lengd vinnuviku, matarhlé o.s.frv. fer eftir samningi VR við SA um störf á almennum vinnumarkaði.
  • Lengd vinnuvikunnar verður í samræmi við kjarasamning VR og eftir atvikum annarra stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Verður þetta útfært í samræmi við þarfir starfseminnar innan þess ramma sem viðeigandi kjarasamningar heimila.