Reglugerð sjúkrasjóðs

1. gr. Nafn sjóðsins, heimili og sjóðfélagar

Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Eflingar-stéttarfélags. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík. Sjóðfélagar eru þeir sem skilað er af umsömdu iðgjaldi af launum til sjóðsins samkvæmt kjarasamningi.

2. gr. Markmið sjóðsins Sjúkrasjóðurinn er félagslegur samtryggingasjóður sjóðfélaga.

Markmið sjóðsins er að styrkja sjóðfélaga er missa vinnutekjur eða ígildi þeirra vegna sjúkdóma eða slysa með því að greiða þeim dagpeninga í slysa- og sjúkdómstilfellum. Ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum er snerta öryggi og heilsufar sjóðfélaga og endurgreiða sjóðfélögum sjúkra- og endurhæfingarkostnað og með því að stuðla að endurkomu sjóðfélaga á vinnumarkað eftir veikindi/slys í samvinnu við Endurhæfingarsjóð.

3. gr. Tekjur sjóðsins

a) Samningsbundin iðgjöld af heildarlaunum sjóðfélaga.

b) Vaxtatekjur og arður.

c) Gjafir, framlög og styrkir.

d) Aðrar tekjur sem aðalfundur kann að ákveða hverju sinni.

4. gr. Stjórn og rekstur

Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Skulu þrír aðalmenn og tveir varamenn kosnir af trúnaðarráði en tveir aðalmenn sem skipa stöðu formanns og varaformanns sjóðsins, vera kosnir beint af félagsstjórn.

Kjörtímabil sjóðsstjórnar er tvö ár. Skal hún skipuð á síðasta fundi trúnaðarráðs og aðalstjórnar fyrir aðalfund. Kjöri hennar skal lýst á aðalfundi.

Sjóðnum skal stjórnað í samræmi við almennar stjórnsýslureglur.  Sjóðstjórn setur sér starfsreglur og nánari reglur um úthlutun fjár úr sjóðnum.

Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu fara með allar umsóknir og afgreiðslu úr sjóðnum sem trúnaðarmál.

5. gr. Reikningar og endurskoðun

Halda skal bókhaldi sjúkrasjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum félagsins. Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins skulu vera skráðar á nafn hvers sjóðfélaga.

Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram endurskoðaðir og áritaðir af skoðunarmönnum reikninga félagsins og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund félagsins.

Allan beinan kostnað vegna reksturs sjóðsins greiðir hann sjálfur.

Árlegan kostnað vegna afgreiðslu og skrifstofu skal ákveða með samkomulagi milli sjóðstjórnar og stjórnar félagsins.

Stjórn sjóðsins er heimilt til að halda fjárhag Sjúkrasjóðs og  Fjölskyldu- og styrktarsjóðs aðskildum telji stjórnin ástæðu til.

6. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila

Að minnsta kosti fimmta hvert ár skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins. Hann skal semja skýrslu til stjórnar um athugun sína.

Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn getur staðið við skuldbindingar sínar. Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar er sjóðstjórn skylt að leggja fyrir næsta aðalfund tillögur til úrbóta.

Um skil á ársreikningum og tryggingafræðilegu mati til ASÍ fer samkvæmt starfsreglum og lögum sambandsins á hverjum tíma.

7. gr. Ávöxtun sjóðsins

Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:

a) Í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs og í skuldabréfum tryggðum með öruggum fasteignaveðum.

b) Með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum.

c) Í bönkum eða sparisjóðum.

d) Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan og veitir jafn góða ávöxtun og samkvæmt liðum a til c.

Stjórn sjóðsins er einnig heimilt að verja fé hans til kaupa eða byggingar félagshúss félagsins, enda sé sjóðurinn eigandi þess að því  leyti.

Ávallt skal þess gætt að varsla og ráðstöfun fjármuna fari ekki í  bága við markmið eða verkefni sjóðsins.

8. gr. Réttindi sjóðfélaga

A. Dagpeningar

Rétt til dagpeninga úr sjóðnum öðlast þeir sem greitt er af til sjóðsins samfellt í að minnsta kosti 3 mánuði. Fjárhæð dagpeninga miðast við meðaltekjur samkvæmt iðgjaldaskilum og greiðslutíma í sjóðinn og er tekjutengd, samanber 11. grein.

Réttur til dagpeninga stofnast frá þeim tíma er samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu lýkur.

Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á að félagsgjöld hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd. Réttur til dagpeninga stofnast ekki ef sjóðfélagi á rétt á greiðslum fyrir tímabundið tekjutap á grundvelli skaðabótalaga, svo sem í kjölfar umferðarslysa.

Réttur til dagpeninga fellur niður þegar/ef sjóðfélagi hefur hætt störfum vegna veikinda/slyss og öðlast rétt til elli-, örorku- eða endurhæfingargreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og/eða lífeyrissjóði.

Sjóðfélagi sem starfar á vernduðum vinnustað öðlast rétt til greiðslna úr sjóðnum vegna veikinda og slysa í samræmi við ákvæði yfirlýsingar ASÍ og Hlutverks frá 4. maí 2006.

B. Aðrar greiðslur

Stjórn sjóðsins er heimilt að endurgreiða sjóðfélögum sjúkra- og endurhæfingarkostnað. Sjóðstjórn ákveður fjárhæðir og skilyrði endurgreiðslna og skulu breytingar kynntar á aðalfundi.

Endurgreiðslur eru háðar því að greitt hafi verið samfellt í 6 mánuði í sjóðinn.

Rétt til endurgreiðslu kostnaðar vegna krabbameinsskoðana öðlast þó þeir sem greitt er af til sjóðsins í að minnsta kosti 3 mánuði samfellt.

Réttur til endurgreiðslna fellur niður um leið og hætt er að greiða iðgjald til sjóðsins. Þó er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja sjóðfélaga á næstu 24 mánuðum eftir starfslok vegna aldurs eða örorku, enda hafi hann við starfslokin verið sjóðfélagi og í a.m.k. 5 næstu ár þar á undan.

9. gr. Samskipti sjúkrasjóða

Sjóðfélagi sem öðlast hefur rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði annars stéttarfélags innan ASÍ, öðlast rétt til sjúkra- og slysadagpeninga hjá sjúkrasjóðnum eftir að hafa greitt í hann í einn mánuð, enda hafi hann fram að því sannanlega átt rétt hjá fyrri sjóðnum.

Vinni sjóðfélagi á fleiri en einum vinnustað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkrasjóð þegar sótt er um greiðslu, skal hann greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt. Heimilt er að fresta greiðslu bóta þar til staðfesting annarra sjóða liggur fyrir um að sjóðfélagi hafi ekki sótt um greiðslur þar. Sjóðurinn skal leita slíkrar staðfestingar og gefa öðrum sjóðum yfirlit um bætur sem greiddar eru vegna sjóðfélagans, tegund og fjárhæð bóta. Umsækjanda er skylt að leggja fram með umsókn sinni staðfestar upplýsingar um greiðslur frá öðrum sjóðum og veita aðrar nauðsynlegar upplýsingar um launagreiðslur að viðlögðum fresti á afgreiðslu umsóknar.

10. gr. Geymd réttindi og heimildir

a) Heimilt er að veita sjóðfélaga sem naut fullra réttinda skv. 8 gr. og stundar starfsþjálfun, námskeið eða nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði félagsins endurnýjaðan bótarétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð. Sama gildir um sjóðfélaga sem hverfur frá vinnu vegna veikinda, heimilisástæðna eða af öðrum gildum ástæðum.

b) Þeir félagsmenn sem fara í lögbundið fæðingarorlof og hafa verið sjóðfélagar í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en taka fæðingarorlofs hófst, halda áunnum réttindum sínum hafi þeir greitt félagsgjald til félagsins af fæðingarorlofi sínu og hefji þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði félagsins. Sé félagsmaður óvinnufær vegna veikinda/slyss í kjölfar fæðingarorlofs og í ráðningasambandi við vinnustað sinn, er heimilt að höfðu samráði við starfsendurhæfingarráðgjafa sjóðsins að greiða dagpeninga að hámarki í 3 mánuði, enda hafi félagsmaðurinn fullnýtt veikindarétt sinn hjá vinnuveitanda en ekki rétt til dagpeninga úr sjúkrasjóði næstliðna 12 mánuði fyrir töku fæðingarorlofsins

c) Stjórn sjóðsins er heimilt að veita félagsmanni sem verið hefur atvinnulaus en greitt félagsgjald til félagsins tilskilinn lágmarkstíma samkvæmt A og B lið þessarar greinar, rétt til dagpeninga og endurgreiðslna, enda hafi hann verið sjóðfélagi í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en hann varð atvinnulaus. Heimild til greiðslna dagpeninga er þó háð því að félagsmaður hafi ekki fullnýtt rétt sinn til dagpeninga næst liðna 12 mánuði áður en hann missti starf sitt og að hann sé í virkri starfsendurhæfingu hjá ráðgjafa Sjúkrasjóðs.

11. gr. Dagpeningar og endurgreiðslur

A. Fjárhæð dagpeninga

1. Dagpeningar sjóðfélaga sem greitt hefur verið af til sjóðsins í 6 mánuði samfellt eða lengur skal miða við 80% af meðallaunum hans á mánuði næstliðna 6 mánuði samkvæmt iðgjaldaskilum.

2. Dagpeningar sjóðfélaga sem greitt hefur verið af til sjóðsins í 4 ár samfellt eða lengur skal með sama hætti miða við 100% af meðallaunum hans næstliðna 6 mánuði. Hámarksgreiðsla dagpeninga samkvæmt þessum lið miðast við kr. 442.250.- á mánuði miðað við launavísitölu 01.07.2012 og tekur breytingum miðað við launavísitölu 1. júlí ár hvert.

3. Hámarksgreiðsla dagpeninga til sjóðfélaga sem hefur skemmri samfellda sjóðfélagsaðild en 4 ár er kr. 366.875.- á mánuði miðað við launavísitölu 01.07.2012 og tekur breytingum miðað við launavísitölu 1. júlí ár hvert.

4. Meðallaun þeirra, sem öðlast hafa rétt til greiðslu sjúkra- og slysadagpeninga úr sjúkrasjóði annars verkalýðsfélags sbr. 9. gr. skulu ákvörðuð með því að deila í laun á viðmiðunartímabili með fjölda mánaða sem greitt hefur verið til Sjúkrasjóðs Eflingar.

5. Meðallaun þeirra sem ekki hafa átt rétt hjá sjúkrasjóði annars verkalýðsfélags ákvarðast með því að deila í laun á viðmiðunartímabili með 6 mánuðum, þó svo að greitt hafi verið skemur en 6 mánuði.

6. Samanlagðar greiðslur frá sjúkrasjóði, Tryggingastofnun ríkisins eða öðrum aðilum skal ekki nema hærri fjárhæð, en sem nemur meðallaunum sjóðfélagans næstliðinna 6 mánaða.

7. Til að viðhalda réttindum í öðrum sjóðum félagsins er dregið 0,7% af dagpeningagreiðslum sjóðfélaga í félagsgjöld til félagsins.

B. Tímabil dagpeningagreiðslna

1. Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum greiðast í allt að 180 daga (6 mánuði) hafi verið skilað 1% af launum sjóðfélaga til sjóðsins eða annars félags innan ASÍ í 6 mánuði samfellt, í 150 daga ( 5 mánuði) hafi verið skilað með sama hætti í 5 mánuði, í 120 daga ( 4 mánuði) hafi verið skilað í 4 mánuði og í 90 daga ( 3 mánuði) hafi verið skilað í 3 mánuði.

2. Sjóðfélagi sem starfar hjá ríki, sveitarfélagi, sjálfseignastofnun eða öðrum sem greiða lægra samningsbundið iðgjald af launum en 1% til sjóðsins, skal fá greitt samkvæmt 11. gr. A lið í allt að 90 daga, en í allt að 30 daga sé veikindaréttur 360 dagar hjá vinnuveitanda.

3. Ekki er greitt lengur en óvinnufærni eða veikindi vara.  Ef verulegar breytingar hafa orðið á launum sjóðfélaga síðustu 6 mánuði er heimilt að meta tekjurnar sérstaklega og þá yfir lengra tímabil.

4. Stjórn sjóðsins er heimilt að greiða dagpeninga allt að 180 daga til viðbótar þegar bótaréttur til tekjutengdra dagpeninga hefur verið tæmdur, að höfðu samráði við starfsendurhæfingarráðgjafa og/eða trúnaðarlækni sjóðsins, enda hafi verið greitt 1% iðgjald til sjóðsins. Heimilt er að greiða sjóðfélaga sem greitt hefur verið af minna en 1% iðgjald til sjóðsins með sama hætti í allt að 90 daga. Greiðsla skv. þessum málsgreinum miðast við lágmarkstekjur samkvæmt kjarasamningi eins og þær eru á hverjum tíma.

5. Heimilt er að úrskurða dagpeninga afturvirkt í allt að 3 mánuði frá því að umsókn barst sjóðnum.

6. Réttur til dagpeninga endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum lýkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.

7. Veikindi eða slys maka og barna

Sjóðfélagi á rétt á greiðslu dagpeninga miðað við gr. 11. A í allt að 180 daga á hverjum 12 mánuðum vegna veikinda eða slysa barna og í allt að 90 daga vegna alvarlegra veikinda eða slysa maka.

C. Dánarbætur og endurgreiddur kostnaður

1. a) Heimilt er að greiða dánarbætur til dánarbús sjóðfélaga sem fellur frá í starfi, er yngri en 70 ára og lætur eftir sig maka og börn. Eingreiddar dánarbætur til virks og greiðandi sjóðfélaga, skulu eigi nema lægri fjárhæð en kr. 360.000.- á mánuði og greiðast hlutfallslega miðað við starfshlutfall, enda hafi iðgjald verið greitt í a.m.k. 6 mánuði samfellt fyrir andlát hans. Upphæð dánarbóta samkvæmt þessum lið miðast við vísitölu neysluverðs 01.01.2017 (grunnvísitala 438,4) og tekur breytingum miðað við vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert.

b) Dánarbætur virks og greiðandi sjóðfélaga sem greitt hefur verið af í a.m.k.4 ár samfellt skulu vera að hámarki kr. 450.000.- miðað við vísitölu neysluverðs 01.01.2017 (grunnvísitala 438,4) og tekur breytingum miðað við vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert. Bæturnar greiðast hlutfallslega miðað við starfshlutfall.

Þegar sex mánuðir hafa liðið frá starfslokum til andláts sjóðfélaga dragast frá kr. 13.628.-, miðað við vísitölu neysluverðs 01.01.2017 (grunnvísitala 438,4) og tekur breytingum miðað við vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert, fyrir hvern mánuð sem á vantar sbr. þó gr. 11.C.2. Aðrar dánarbætur.

c) Láti sjóðfélagi ekki eftir sig maka eða börn, er heimilt að greiða með sama hætti dánarbúi dánarbætur hafi aðrir erfingjar annast útför hins látna og gengist við eignum og skuldum hans.

2. Aðrar dánarbætur

Við andlát félaga sem, ekki er á vinnumarkaði en var sjóðfélagi við  starfslok er stjórn sjóðsins heimilt að greiða til dánarbús hins látna hluta  dánarbóta. Skilyrði greiðslu er að hinn látni hafi verið sjóðfélagi samfellt síðustu 5 ár fyrir starfslok. Skulu fjárhæðir samkvæmt þessum lið ákveðnar í sjóðstjórn.

3. Kostnaðarsamar læknisaðgerðir erlendis

Stjórn sjóðsins er heimilt að endurgreiða sjóðfélaga kostnað vegna læknisaðgerða erlendis. Endurgreiðsla samkvæmt þessari grein má ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur dagpeningum miðað við lágmarkstekjur samkvæmt aðalkjarasamningi Eflingar á hverjum tíma í allt að 90 daga.

4. Forvarnir og endurhæfingarstyrkir

Heimilt er stjórn sjóðsins að endurgreiða kostnað sjóðfélaga vegna forvarna og endurhæfingar. Skulu fjárhæðir og viðmiðanir ákveðnar í sjóðstjórn.  Sjóðurinn skal leggja áherslu á að endurgreiða kostnað vegna krabbameinsskoðana og hjartarannsókna, sjúkra- og endurþjálfunar og meðferðar og endurhæfingar á heilsustofnunum og þjálfunarstöðvum.

5. Aðrar heimildir

Stjórn sjóðsins er heimilt að stofna til annarra styrkja í formi líftrygginga,  dánarbóta, slysatrygginga og annarra heilsufarstrygginga.

12. gr. Styrktarsjóður Eflingar-stéttarfélags.

1. Endurgreiðslur og styrkir

Styrkrtarsjóður Eflingar er deild í Sjúkrasjóði Eflingar-stéttarfélags. Stjórn Styrktarsjóðs er skipuð sömu mönnum er skipa stjórn Sjúkrasjóðs félagsins. Stjórnin skal taka ákvörðun um endurgreiðslur og styrki úr sjóðnum.  Starfsemi deildarinnar fer að öðru leyti eftir almennum reglum sjúkrasjóðsins eftir því sem við á. Starfsmaður sjúkrasjóðs skal jafnframt vera starfsmaður deildarinnar.  Markmið sjóðsins er að veita styrki og endurgreiða læknis- og endurhæfingarkostnað ef sérstaklega stendur á fyrir sjóðfélaga Sjúkrasjóðs Eflingar sem ekki eiga rétt á dagpeningum. Eingöngu er heimilt að endurgreiða úr sjóðnum ef sjóðfélagi á í verulegum fjárhagsörðugleikum, hefur ekki stundað fulla vinnu í 6 mánuði, á við alvarleg og langvarandi veikindi að stríða, örorku- eða ellihrumleika.

Ennfremur er sjóðnum heimilt að styrkja stofnanir eða félagasamtök sem sinna heilbrigðis- mannúðar- eða réttindamálum.

2. Stjórn Sjúkrasjóðs Eflingar skal verja 5% af iðgjöldum sjóðsins næstliðins árs til Styrktarsjóðs. Stjórn Sjúkrasjóðsins er heimilt að greiða auka tillag Styrktarsjóðs gerist þess þörf vegna fjárhagsstöðu hans.

13. gr. Skyldur sjóðfélaga, umsóknir um greiðslur og upplýsingar

Umsóknum skal skilað í því formi sem stjórn sjóðsins ákveður ásamt nauðsynlegum vottorðum er tryggja réttmæti greiðslna.

Umsækjandi skal, ef nauðsyn ber til að mati sjóðstjórnar, heimila trúnaðarlækni sjóðsins að sannreyna réttmæti framlagðra læknisvottorða og læknisskoðun ef þörf krefur.  Sjóðfélagi er verið hefur frá störfum vegna veikinda/slyss skal ef sjóðstjórn óskar, mæta í viðtal til starfsendurhæfingarráðgjafa sjóðsins og skoðun til trúnaðarlæknis eða annars aðila sem sjóðurinn tilnefnir ,sé þess óskað.

Stjórn sjóðsins er heimilt að styrkja sjóðfélaga sem fer í  starfsendurhæfingu.  Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá umsækjanda skal sjóðstjórn hafna umsókn að svo stöddu. Sjóðfélagi sem gefið hefur rangar eða villandi upplýsingar eða leynt hefur upplýsingum um hagi sína, fyrirgerir rétti sínum. Heimilt er að endurkrefja sjóðfélaga um allar greiðslur sem þannig eru fengnar.

14. gr. Fyrning

Réttur til dagpeninga og endurgreiðslna úr sjúkrasjóði samkvæmt reglugerð þessari fellur niður sé umsókn ekki skilað til sjóðsins innan 12 mánaða frá því að rétturinn stofnast.

15. gr. Endurgreiðsla iðgjalda

Iðgjöld til Sjúkrasjóðsins endurgreiðast ekki.

16. gr. Um málsmeðferð og skyldur sjóðsins

Um málsmeðferð skal fara að almennum stjórnsýslureglum eftir því sem við á. Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðfélaga um rétt þeirra til aðstoðar með útgáfu bæklinga eða dreifirita, í félagsblaði og á heimasíðu félagsins.

17. gr. Málsskotsréttur

Heimilt er að vísa ágreiningi vegna úthlutunar til úrskurðar félagsstjórnar.

18.gr. Gerðabók

Stjórn sjóðsins skal ávallt halda gerðabók yfir umsóknir um dagpeninga, endurgreiðslur og samþykktar umsóknir.

19. gr. Ýmis ákvæði

Ef farsóttir geisa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð dagpeninga ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

20. gr. Breytingar á reglugerðinni

Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda sé þess getið í fundarboði að reglugerðarbreytingar séu á dagskrá og ennfremur skulu breytingarnar áður hafa verið ræddar á fundi stjórnar og trúnaðarráðs og/eða almennum félagsfundi minnst viku fyrir aðalfund.

Tillögum til reglugerðarbreytinga, sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri, skal skilað til félagsstjórnar eigi síðan en fyrir lok marsmánaðar ár hvert.

Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nægir til að reglugerðarbreyting teljist samþykkt.

Samþykktar breytingar á reglugerðinni skulu sendar skrifstofu ASÍ.

21. gr. Gildistími Reglugerðin tekur gildi frá og með 1. maí 2019.

Reglugerðin var samþykkt á framhaldsaðalfundum félaganna Dagsbrúnar og Framsóknar-stéttarfélags 12. nóvember 1998, Starfsmannafélagsins Sóknar 3. nóvember 1998, Félags starfsfólks í veitingahúsum 15. nóvember 1998 og á félagsfundi hjá Iðju, félagi verksmiðjufólks 24. nóvember 1999.

Reglugerðinni var breytt á aðalfundum Eflingar-stéttarfélags árið 2000, 2002, 2003, 2005, 2006, 2007, 2008 og 2009,2010,2012, 2013, 2014, 2017. Reglugerðinni var síðast breytt á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags 29. apríl 2019.