Trúnaðarmenn

Efling leggur mikla áherslu á að bjóða trúnaðarmönnum fræðslu á sviði kjara- og félagsmála og koma til þeirra nýjustu upplýsingum hverju sinni. Samkvæmt samningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa 5 eða fleiri félagsmenn.

Hlutverk

Trúnaðarmaður er tengiliður starfsfólks við stéttarfélagið. Hlutverk hans/hennar er að gæta þess að farið sé eftir kjarasamningum og að lög og réttindi séu virt. Trúnaðarmaðurinn er til staðar fyrir samstarfsmenn sína, auðveldar samskipti á vinnustaðnum, bendir á leiðir til úrlausnar á ágreiningsmálum, miðlar upplýsingum og hvetur samstarfsfólk til að leita sér upplýsinga og aðstoðar hjá stéttarfélaginu þegar við á.

Trúnaðarmaður er kjörinn fulltrúi

Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við Eflingu. Eftir kosningu fær trúnaðarmaðurinn og vinnuveitandi hans senda staðfestingu á kjöri og boð á trúnaðarmannanámskeið í pósti.

Hér má sækja eyðublað – tilkynning um trúnaðarmann

Trúnaðarmaður nýtur verndar

Trúnaðarmanni má ekki segja upp vegna starfa hans sem trúnaðarmanns og hann gengur fyrir öðrum um vinnu þurfi atvinnurekandi að fækka starfsfólki.

Það má kynna sér réttindi og skyldur trúnaðarmanna í bæklingnum hér

Er enginn trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Samkvæmt samningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa fimm eða fleiri félagsmenn.

Ef enginn trúnaðarmaður er á þínum vinnustað, viljum við biðja þig um að hafa samband við Kjaramálasvið Eflingar í síma 510 7500 eða senda tölvupóst á kjaramal@efling.is til að fá aðstoð við að kjósa trúnaðarmann.

Félagssvið Eflingar sér um utanumhald og framkvæmd trúnaðarmannakosninga og er tengiliður trúnaðarmanna hjá stéttarfélaginu.

Fræðsla

Trúnaðarmenn þurfa að sækja fjögur námskeið á kjörtímabili sínu, tvö fyrra árið og tvö seinna árið.

Námskeiðin miða að því að bæta við hæfni þeirra og þekkingu með því að fræðast um:

  • Kjarasamninga
  • Læra að lesa launaseðla
  • Verkalýðsbaráttan og samningaviðræður
  • Hlutverk verkalýðsfélaga og starfssemi þeirra
  • Lög og réttindi fólks á atvinnumarkaði

Námskeiðin taka einnig fyrir samskipti og tjáningu og gera trúnaðarmenn betur í stakk búna til að sinna hlutverki sínu og efla samstarfsfólk sitt. Námskeiðin eru haldin á dagtíma, í 2-3 daga í senn og eiga trúnaðarmenn samningsbundinn rétt til að sækja þau án launaskerðingar.

Upplýsingar um trúnaðarmannanámskeið