Vaktavinna í ræstingu

Í vaktavinnu vinnur þú á venjulegum vinnuhraða og færð álag á launin þegar unnið er utan dagvinnutímabils. Starfsmenn sem ræsta opinberar stofnanir eiga að fá hærra álag um nætur og helgar, 55% í stað 45%.

Ef þú ert ráðin/n í vaktavinnu á það að koma fram á ráðningarsamningi.

Matar- og kaffitími

Starfsmaður fær 5 mínútur í neysluhlé fyrir hvern unninn klukkutíma sem gerir 40 mínútur á dag fyrir fullt starf.

Vaktir og skipulag vakta

Hægt er að raða vöktum á alla daga vikunnar – 100% vaktavinna er 40 klst. á viku.

Ef unnið er fimm daga vikunnar og alltaf á tímabilinu 17:00 til 08:00 er 100% vaktavinna 38 klst. á viku.

Vakt skal ekki vera lengri en 12 klst. og ekki styttri en 3 klst.

Vakt á alltaf að vera samfelld.

Á vaktaskrá skal koma fram hve löng vaktin er, hvenær hún hefst og henni lýkur.

Vaktaskrá skal gerð fyrir 4 vikur í senn og liggja fyrir a.m.k. viku áður en vinna hefst eftir henni.

Tilkynna þarf breytingar á vaktaskrá með a.m.k. viku fyrirvara.

Vetrarfrí

Starfsmenn í vaktavinnu ávinna sér 12 vetrarfrísdaga fyrir vinnu á helgidögum. Miðað er við að frídagarnir séu teknir á tímabilinu 1. október – 1. maí en einnig er hægt að semja um greiðslur í stað frídaga, 8 klst. í dagvinnu fyrir hvern frídag miðað við fullt starf.